VERKFALL sjómanna AFLs kl. 20:00 í kvöld
Verkfall sjómanna í AFLi Starfsgreinafélagi svo og öðrum sjómannafélögum landsins skellur á að nýju kl. 20:00 í kvöld 14. desember.
Greiddar verða verkfallsbætur til þeirra sem þegar hafa sótt um vegna fyrra verkfalls í nóvember. Næst verður greitt úr verkfallssjóði AFLs 10. janúar nk. og þurfa umsóknir að berast í síðasta lagi föstudaginn 6. janúar.
Skv. ákvörðun stjórnar Vinnudeilusjóðs AFLs verða verkfallsbætur jafnar kauptryggingu - þ.e. 10.800 kr. pr. virkan dag í verkfalli. Greitt verður frá og með öðrum virkum degi verkfalls. Þeir sem taka virkan þátt í verkfallsvörslu og skrá sig á skrifstofum félagsins til verkfallsvörslu fá 20% álag á verkfallsbætur sínar þá daga sem þeir eru við verkfallsvörslu.
Stundi félagsmaður launaða vinnu í verkfalli sjómanna - á hann ekki rétt á verkfallsbótum.