AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Kjaramálaráðstefna AFLs krefst þess að laun dugi til framfærslu!

Kjaaramal2018

Um helgina fór fram kjaramálaráðstefna AFLs Starfsgreinafélags þar sem m.a var unnið að mótun kröfugerðar félagsins fyrir komandi samninga.  Í ályktun ráðstefnunnar segir m.a.

"AFL Starfsgreinafélag krefst þess að við gerð næstu kjarasamninga verði tekið á því misrétti sem hefur vaxið síðustu misseri, með úrskurðum kjararáðs sem farið hefur langt út fyrir þann ramma launahækkana sem miðað hefur verið við á almennum vinnumarkaði – svo og með aukinni skattbyrði sem stjórnvöld hafa lagt á launafólk.

AFL krefst þess að lægstu kauptaxtar nægi til sómasamlegrar framfærslu og telur óásættanlegt að fólk í fullri vinnu festist í fátæktargildru og félagslegri aðstoð"

 

Þá segir í ályktun félagsins að félagið hafni alfarið framkomnum hugmyndum um sveigjanlegan vinnutíma með lenginu dagvinnutímabilsins en kallað er eftir styttingu vinnuvikunnar án skerðingar í launum. Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um ályktun ASÍ-Ung þar sem farið er fram á að fundið verði jafnvægi einkalífs og vinnu - þ.m.t. með styttingu daglegs vinnutíma.Kjaramálaráðstefna AFLs krefst þess að í næstu kjarasamningum verði fallið frá þeim "hlutfallstengdu" kauptöxtum sem samið var um í síðustu kjarasamningum fyrir fólk undir tvítugu.

 

Ályktun kjaramálaráðstefnu AFLs 2018 er hér í heild:

 

AFL Starfsgreinafélag krefst þess að við gerð næstu kjarasamninga verði tekið á því misrétti sem hefur vaxið síðustu misseri, með úrskurðum kjararáðs sem farið hefur langt út fyrir þann ramma launahækkana sem miðað hefur verið við á almennum vinnumarkaði – svo og með aukinni skattbyrði sem stjórnvöld hafa lagt á launafólk.
AFL krefst þess að lægstu kauptaxtar nægi til sómasamlegrar framfærslu og telur óásættanlegt að fólk í fullri vinnu festist í fátæktargildru og félagslegri aðstoð.
Félagið beinir því til samninganefnda á vinnumarkaði að hraða vinnu sinni og vanda, þannig að nýir kjarasamningar séu tilbúnir þegar eldri samningar renna út. Gangi það ekki eftir, verði allar launahækkanir afturvirkar frá þeim degi sem eldri samningar renna út – svo sem Kjararáð hefur haft að meginreglu í ákvörðunum sínum er varða þá hærra settu í samfélaginu.
Kjaramálaráðstefnan krefst þess að þeirri mismunun sem ungt fólk á vinnumarkaði býr við með þeim „hlutfalls“ launatöxtum sem samið var um í síðustu kjarasamningum, verði tafarlaust hætt. Hið sama gildi um alla fullgilda á vinnumarkaði og enginn afsláttur verði gefinn af vinnu ungs fólks. 
Kjaramálaráðstefnan ræddi framkomnar hugmyndir um sveigjanlegan vinnutíma og lengingu dagvinnutímabils. AFL hafnar alfarið þessum hugmyndum, en kallar eftir styttingu vinnuvikunnar, án skerðingar á heildartekjum.  Félagið hvetur til þess að launatöflur kjarasamninga verði teknar til endurskoðunar þannig að aukin ábyrgð og færni í starfi skili sér í sýnilegum ávinningi en síðustu ár hefur bil milli launaflokka farið síminnkandi.
Þá hvetur kjaramálaráðstefnan einnig til þess að samsetningu á launum í veikindum verði breytt þannig að staðgengilslaun verði greidd allan veikindarétt.
Félagið hvetur jafnframt til þess að efnt verði til samráðs sveitarfélaga, ríkisvalds, launagreiðenda og Alþýðusambandsfélaga um hagsmuni ungs fólks og fólks með börn.
Sérstaklega er vakin athygli
-tengingu fæðingarorlofs og aðgengi að dagvistun til að auðvelda ungum foreldrum að komast aftur til vinnu.
-lokunum í skólum og leikskólum vegna sumarleyfa, starfsdaga og annarra frídaga og þeim óþægindum sem það veldur ungum foreldrum sem oftar en ekki þurfa að taka ólaunað frí frá sinni atvinnu.  Þetta leiðir oft til þess að þegar kemur að sumarleyfistíma - þegar fjölskyldur eiga að geta verið saman í orlofi - er orlofsréttur foreldra uppurinn.
Þá verði og unnið að mótun húsnæðisstefnu til frambúðar er miði að því að launafólk eigi raunhæfa möguleika á að eignast eða komast í varanlegt og öruggt leiguhúsnæði með greiðslubyrði sem er viðunandi hlutfall ráðstöfunartekna. AFL Starfsgreinafélag telur öruggt húsnæði vera grundvallaratriði í félagslegu réttlæti og sjálfsögð mannréttindi allra barna að alast upp í búsetuöryggi og stöðugu umhverfi.
Kjaramálaráðstefna AFLs Starfsgreinafélags hvetur stjórnvöld til þess að setja fullan þunga í vinnustaðaeftirlit með aðilum vinnumarkaðarins og baráttu gegn félagslegum undirboðum. AFL vekur athygli á því að með félagslegum undirboðum er vegið að afkomu launafólks á almennum vinnumarkaði auk þess sem undirboðin skaða samfélagið allt. 
Mikilvægt er að lögregla og skattayfirvöld taki þátt í vinnustaðaeftirlitinu.  Þá hvetur félagið til þess að löggjafinn sjái til þess að brot á réttindum launafólks og hvers kyns misbeiting í skjóli yfirburðarstöðu launagreiðanda gagnvart launafólki – verði refsiverð svo sem önnur afbrot.
Félagið hvetur jafnframt til þess að tekjutenging bóta úr almannatryggingakerfinu verði afnumin, þannig að fólk fái notið lífeyrissparnaðar síns án þess að grunnbætur skerðist. Ennfremur að unnin verði framtíðarstefna í heilbrigðismálum með það að markmiði að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls fyrir notendur.

 

 

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi