AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

"...og ef einhver segir eitthvað þá hlustar enginn - því við erum öll upptekin við að kaupa glingur á netinu..."

FyrsiMai2019

Sjá fleiri myndir

Hátíðahöld AFLs á 1. maí tókust vel og var húsfyllir á nánast öllum samkomum félagsins en þær voru haldnar á Höfn, Djúpavogi, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Egilsstöðum, Seyðisfirði, Borgafirði Eystri og Vopnafirði og var vel á annað þúsund manns alls þátttakendur í baráttufundum félagsins.

1. maí ávarp félagsins fer hér á eftir.

Heimurinn hefur aldrei verið eins fullkominn eins og í dag.

Framleiðslugeta mannskyns er meiri en nokkru sinni áður og í raun fer fátækt í heiminum minnkandi og lífsgæði eru að aukast. Á sama tíma vex reiði í samfélögum sem eru meðal þeirra ríkustu í heiminum. Fólk í gulum vestum fer um stræti stórborga Frakklands og mótmælir. En það er ekki samhljómur í mótmælunum – þar ganga hlið við hlið hægri öfgamenn, kommúnistar og umhverfisaktívistar. Það er reiðin sem sameinar.

Á Íslandi kraumar mikil reiði en líka andvaraleysi. Stór hópur af fólki er reiður og finnst hann afskiptur af gæðum heimsins og reiðin birtist ekki síst á samfélagsmiðlum.Þessi reiði var áberandi eftir bankahrunið fyrir 11 árum – en þá tókst ekki að virkja hana til áhrifa þannig að hún hélt bara áfram að grassera.

Ástæða þessarar reiði og upplausnar er skiljanleg því bili á milli þeirra ofurríku og almennings er alltaf að vaxa. Þeir ríku verða ríkari og svo virðist sem hagvöxtur og velsæld lendi að mestu leyti hjá ríkasta fólki heimsins á meðan millistéttin og venjulegt alþýðufólk þarf að bítast um molana.

Þrír auðugustu menn heims eiga í dag meiri verðmæti en fátækustu 10% jarðarbúa. Og auðsöfnun ríkustu jarðarbúa -sjöfaldaðist á síðustu 15 árum.

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðum ársins endurspegla þetta óréttlæti sem hefur farið vaxandi í íslensku samfélagi.

Ójöfnuður hefur aukist og sífellt fleiri hópar sitja eftir í samfélagi sem hefur alla burði til að gera betur. Þúsundir barna alast upp við fátækt, staða kvenna og einstæðra karla í láglaunastörfum er vægast sagt þröng, margir útlendingar á vinnumarkaði búa við hörmulegar aðstæður og hópur aldraðra og öryrkja nær ekki endum saman.

Þetta er ekki ásættanleg staða í einu ríkasta landi heims. Við viljum samfélag þar sem fólk getir lifað með reisn, þar sem öll börn hafa sömu möguleika, þar sem fullvinnandi fólk þarf ekki að hokra í fátækt.

Ótal rannsóknir og kannanir sýna að þeim samfélögum farnast best þar sem jöfnuður er mestur. Þar sem enginn er skilinn eftir. Vissulega er jöfnuður meiri hér á landi en víða annars staðar en við getum gert svo miklu betur.

Hvernig má það vera í samfélagi sem kennir sig við velferð að skattbyrði þeirra tekjulægstu hefur verið þyngd á meðan skattar þeirra tekjuhæstu lækka. Það er öfugmælavísa úr leikhúsi fáránleikans. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar í viðræðum við atvinnurekendur eru tilraun til að laga þetta óréttlæti. Það er nefnilega nóg til fyrir alla.

Almenningur upplifir máttleysi – því þrátt fyrir alla reiðina virðist ekkert breytast og niðurstöður kosninga víðast hvar um heiminn gefa lítið tilefni til bjartsýni. Þegar harðnar á dalnum er eins og fólk leiti til öfgastjórnmála í reiði sinni og æ fleiri ríki er nú undir stjórn fólks sem daðrar nánast við fasisma.

Við sjáum það víða um heim að það er hart sótt að dómstólum, blaðamönnum og verkalýðsfélögum eða öllum þeim sem mögulega munu reyna að standa vörð um mannlega reisn og rétt.

Umræður um verkalýðsmál hefur verið áberandi í fjölmiðlum á liðnum misserum, ekki bara í tengslum við samningamálin – heldur einnig almenn umræða, það er jákvætt og vekur áhuga fleira launafólks fyrir eigin kjörum. Mikil endurnýjun hefur verið síðustu ár í forystusveitum margra stéttarfélaga, bæði innan ASÍ félaga og einnig BSRB. Og því beið fólks þess að nýjir leiðtogar myndu gera nýja samninga – samninga sem myndu snúa vörn í sókn.

Tekist hefur að semja fyrir stóran hluta félagsmanna Alþýðusambandsins og hafa þeir samningar verið samþykktir með nokkrum atkvæðamun. Einnig hér á Austurlandi.

Fyrir okkur sem störfum fyrir hreyfinguna olli lítil þátttaka í kosningum um kjarasamninginn miklum vonbrigðum og var kjörsókn hjá AFLi einhver sú lélegasta um árabil en var þó einhver sú mesta meðal félaga Alþýðusambandsins og það vakti líka athygli að almennt virtist lítill áhugi meðal félagsmanna. Það var lítil þátttaka á kynningarfundum okkar og sáralítil umræða í samfélaginu um þessa samninga.

Og þrátt fyrir virðulega nafngift lífskjarasamninganna eru þeir í raun lítil stefnubreyting frá fyrri samningum. Við sömdum um kauphækkun og ríkisvaldið lofaði skattalækkun á láglaunahópa,aðgerðum í húsnæðismálum og átaki í baráttu gegn kennitöluflakki og fleiru. Við höfum oft séð þessi loforð áður.

En við bindum vonir við að nýgerðir kjarasamningar og yfirlýsingar ríkisstjórnar í tengslum við þá muni færa okkur aukinn kaupmátt, lægri vexti og yfirhöfuð að stjórnvöld standi við gefin fyrirheit, en stærstur hluti af þeirra framlagi er enn óútfært.

Á það verður líka að líta að enn er ósamið við stóran hluta félagsmanna og eru félagar okkar í iðnaðarmannasamfélaginu ennþá í húsi sáttasemjara. Þá er ósamið við ríki og sveitarfélög og síðan eiga tugir félaga utan ASÍ eftir að ganga frá sínum samningum.

Það reynir því á opinbera aðila og samtök atvinnulífsins á næstu vikum. Ef samið verður á rausnarlegri nótum við aðra aðila en verkafólk og verslunarmenn – rofnar traust á milli aðila meir en þegar er orðið.

Það hefur verið gagnrýnt á síðustu árum að með samningum hafi félagsmenn Alþýðusambandsfélaga tekið ábyrgð á efnahagsöryggi – en það gerðum við aftur að þessu sinni og talsmenn nýgerðra kjarasamninga segja þá tryggja stöðugleika og forsendur til vaxtalækkana.

Ef aðrir hópar semja út fyrir þann ramma sem nýgerðir kjarasamningar settu – er öll sátt úti og þá þarf að blása til aðgerða því við munum ekki sætta okkur við enn einn ganginn að verkafólk axli ábyrgðina en aðrir fleyti rjómann af.

En stóra málið er auðvitað hvort og hvernig ríkisvaldið mun framfylgja fyrirheitum sínum því verkalýðsfélögin semja ekki um samfélagsskipan – það er einfaldlega ekki á valdi félaganna. Samfélagsgerðin er mótuð af löggjafanum. Þess vegna skiptir það höfuðmáli að bæði við í verkalýðsfélögunum og hinn almenni borgari þessa lands fylgi fyrirheitunum eftir og krefjist aðgerða af stjórnvöldum.

Það er brýnt að tekið verði á húsnæðisvanda tekjulægsta hópsins í samfélaginu og þeim sem eru að kaupa í fyrsta sinn eða koma úr fjárhagserfiðleikum. Við höfðum undir forystu Alþýðusambandsins byggt upp glæsilegt félagslegt íbúðakerfi – en nýfrjálshyggjan í byrjun aldarinnar markaðsvæddi það kerfi eins og allt sem frjálshyggjan kemst í tæri við og það var skelfileg aðgerð.

Nú hefur heilbrigðiskerfið verið fjársvelt svo að til vandræða horfir og þá heyrum við gamalkunnugt stef – að einkavæðing þess sé lausnin. En einkavæðing gerir ekkert gagn ein og sér – og munum að einkavæddheilbrigðisþjónusta er ekkert einkarekin – því við sem skattborgarar borgum allt hvort eð er – en þar er búinn til gróði og hann er einkavæddur. Við höfum tækin og tólin og þekkinguna til að skapa velferð fyrir alla – en heimurinn er ekki að því nema að litlu leyti. Þróunarríki eru áfram arðrænd og ágangur okkar í auðlindir og umgengni um náttúruna er skelfileg.

Við - þetta venjulega fólk – erum líka þátttakendur í þessu. Við kaupum meira og meira af hvers kyns glingri sem flutt er þvert yfir allan hnöttinn af því að einhvers staðar er hægt að framleiða glingrið ódýrt með barnaþrælkun og með því að virða að vettugi áhrif á umhverfið.

Og hvernig tengist þetta 1. Maí og verkalýðshreyfingu á Íslandi gæti fólk spurt. Svona hversdags upplifum við flest verkalýðsfélögin sem eitthvað hjálpartæki okkar við að gæta hagsmuna gagnvart launagreiðendum og til að gera kjarasamninga. En verkalýðshreyfingin er í raun miklu meira og maður þarf aðeins að líta til sögunnar til að gera sér grein fyrir því að verkalýðshreyfingin er í raun og veru mannréttindahreyfing – og hefur alltaf verið það fyrst og fremst.

Við skulum öll muna það að réttindi okkar sem við búum við í dag voru ekki sjálfsögð. Réttur okkar til að halda þennan fund – til að segja skoðanir okkar – réttur til að fara í verkfall og réttur til að semja um laun – þetta eru ekki meðfædd réttindi. Þetta eru réttindi sem afar okkar og ömmur þurftu að berjast fyrir. Víða um heim stendur þessi barátta ennþá og hún hefur víðast hvar verið mun harkalegri en hér á landi.

Það er kannski við hæfi að minnast þess af hverju við höldum 1. Maí – á þessum degi. 1886 voru háð verkföll í Haymarket í Chicago. Í byrjun maí skaut lögreglan 7 verkfallsmenn til bana og því var svarað með óeirðum daginn eftir þar sem lögreglumenn fórust einnig og í kjölfarið voru 5 forystumanna verkalýðsfélagsins dæmdir til dauða og hengdir. Þetta var baráttan sem skilaði okkur 8 stunda vinnudegi.

Þannig hefur verkalýðsbaráttan verið – grýtt leið í baráttu gegn yfirstéttinni sem alltaf finnur nytsama fótgönguliða í okkar eigin röðum því lögreglan er ekkert mönnuð yfirstéttarfólki – alla vega ekki sá hluti sem leggur líf og limi í hættu. En lögreglu og jafnvel hervaldi er hiklaust beitt á alþýðufólk sem grípur til varnar.

Það voru miklar mannbótahreyfingar sem hófu sókn á 19. öld. Það var verkalýðshreyfingin, samvinnuhreyfingin, ungmennahreyfingin og bindindishreyfingin. Þetta voru öflin sem börðust fyrir auknum gæðum mannlífsins og virðingu og reisn alþýðunnar.

Þetta voru góðir tímar þar sem alþýðufólk sneri bökum saman og áorkaði svo miklu.

Það var á brattan að sækja því jafnvel enn þann dag í dag er til fólk sem telur sig fætt til að stjórna okkur og að það eigi rétt á meiri auðæfum og velsæld en aðrir. Og allt sem okkur hefur tekist að ná fram í bættum kjörum hefur þurft að slíta úr kjúkum þessa yfirstéttarfólks með valdi.

Á þeim tíma sem vindar lýðfrelsis fóru um heiminn var vistarband á Íslandi. Þar var fólk nánast ánauðugt og þá var okkur bannað að stofna félög um hagsmuni okkar.

Félagafrelsið sem oft er vitnað til – er frelsi okkar til að stofna verkalýðsfélög og stjórnmálafélög því það var bannað hér á landi langt fram eftir 19. öldinni.

En það er fleira mannréttindi heldur en að mega stofna félög – mannréttindi eru ekkí síður réttur til að lifa mannsæmandi lífi – lífi án hungurs og lífi án ótta. Það eru mannréttindi að búa í mannsæmandi húsnæði og það eru mannréttindi að eiga kost á viðunandi heilbrigðisþjónustu og að geta sótt sér menntun við hæfi. Þetta eru mannréttindi líka.

Það eru mannréttindi að geta sagt skoðun sína án ótta við yfirvaldið – að njóta frelsis án tillits til litarháttar eða trúarbragða eða kynhneigðar.Það er ekkert alltaf auðvelt að hafa skoðanir sem ganga gegn hagsmunum þeirra valdamiklu – en ef enginn þorir að hafa þær skoðanir og berjast fyrir þeim þá vinnur yfirstéttin. Og verum ekki í neinum vafa um það að yfirstéttin er enginn vinur okkar.

Mig langar að rifja upp ljóð eftir þýska prestinn Martin Niemöller um kjarkleysið í Þýskalandi á dögum nasista. Þetta á vel við nú á tímum þeirra hömlulausu umræðu á samfélagsmiðlum þar sem fordómar og hatur vaða uppi.

Fyrst komu þeir eftir sósíalistunum og ég sagði ekkert

- Af því að ég er ekki sósíalisti.

Svo komu þeir eftir verkalýðsforingjum og ég sagði ekkert

- Af því ég er ekki verkalýðsforingi

Svo komu þeir eftir gyðingunum og ég sagði ekkert

-af því ég er ekki gyðingur.

Svo komu þeir og sóttu mig – og það var enginn eftir til að segja neitt...

Við vitum hvernig baráttuaðferðir yfirstéttarinnar hafa alltaf verið – það er að etja alþýðufólki gegn hvert öðru. Búa til klofning og fylkingar og etja þeim saman. Við þekkjum þetta allt og það er ekkert nýtt í þessu efni.

Það er reynt að gera út á ótta við hið framandi – og samfélagsmiðlarnir eru góðir til þess brúks enda hefur komið í ljós á síðustu árum hvernig vefmiðlar hafa verið notaðir grímulaust til að dreifa lygum og uppspuna – allt til að tryggja valdastöðu þeirra sem hafa mestu peningana.

Við - við sem erum alþýða landsins og launafólk landsins höfum alveg styrkinn til að breyta því sem við viljum breyta. Það kallar á kjark og samstöðu og því miður höfum við hvorugt. Það kallar á það að við snúum bökum saman og hættum að takast á innbyrðis. Því meðan við sláumst um hvers kyns dægurmál – hleypur yfirstéttin hlæjandi alla leið í bankann. Við sem þjóð þurfum að ákveða hvernig samfélag við viljum – og við vitum það - því allar skoðanakannanir eru sammála.

Við viljum gott öryggisnet fyrir þá sem gengur illa í lífinu – við viljum heilbrigðisþjónustu fyrir alla og við viljum jafnt og gott aðgengi fyrir alla til menntunar.

Við viljum að allir geti búið við mannsæmandi kjör og búið í góðu húsnæði. Þjóðin er sammála um þetta allt saman en við fylgjum því aldrei eftir.

Við búum við þannig kerfi að öll stjórnmál eru málamiðlanir milli flokka og það er kannski ekki svo slæmt í sjálfu sér en síðustu áratugi hafa allar málamiðlanir verið til hægri og það er farið að sjást. Afleiðingarnar blasa við. Almannaþjónusta fer versnandi ár frá ári - stuðningur við barnafólk minnkandi, fátækt eldri borgara vaxandi og þannig mætti lengi telja. Innviðir landsins grotna niður – vegakerfið hefur látið á sjá og skólabyggingar eru víða illa farnar af viðhaldsleysi. Og allt þetta til að fjármagna enn meiri auðsöfnun þeirra allra ríkustu.

Er þetta samfélagið sem við viljum – samfélag þar sem skattalækkanir á þá ofurríku eru fjármagnaðar með því að auka álögur á barnafólk og skerða heilbrigðisþjónustu. Að sjálfsögðu ekki – en þetta hefur verið veruleikinn síðustu ár og það segir enginn neitt og ef einhver segir eitthvað þá hlustar enginn - því við erum öll upptekin við að kaupa glingur á netinu.

Góðir félagar – við stöndum vissulega á tímamótum. Sú verkalýðsbarátta sem stundum er vitnað til, er ekki til lengur og það út af fyrir sig er allt í lagi. Það er enginn Guðmundur jaki að hella niður mjólk á Mosfellsheiðinni. Við eigum ekki að reyna að endurskapa liðna atburði. Við lifum á öðrum tímum og öðrum veruleika. Við þurfum að finna okkar vopn aftur en þau hafa verið reitt af okkur síðustu árin og ekki síst af okkur sjálfum.

Góðir fundarmenn – hér á árum áður átti verkalýðshreyfingin marga vini á Alþingi og þar sat fólk á borð við Guðmund J., Eðvarð, Pétur Sig og Aðalheiði Bjarnfreðsdóttir. Unga fólkið hér veit ekkert hvaða fólk þetta er sem ég er að telja upp – en þetta var verkafólk, alið upp í fátækt og vann verkamannastörf þar til alþýðan setti þau inn á þing og þar voru þau og fleiri í sífelldri baráttu við yfirstéttina um skiptingu auðæfanna og reisn alþýðunnar.

Þetta var meðal annars brjóstvörn okkar og skilaði okkur miklum árangri – en það tókst að sá tortryggni meðal fólks um og því að verkalýðsforingjar mættu ekki vera flokkpólitískir. Nú eigum við enga vini á alþingi og það er dýrt.

Góðir félagar – Alþýðusambandi er komið á annað hundraðið í aldri og barátta okkar hefur staðið lengi og stundum er eins og við spólum alltaf í sama hjólfarinu. Stundum miðar okkur vel áfram en svo koma bakslög og ósigrar. Verkefninu er hvergi nærri lokið og það er okkar sem höfum kosið að vinna innan vébanda verkalýðsfélaganna að reyna að fara í forystu í baráttu sem er oft óvinsæl og yfirleitt alltaf erfið.

Framtíðin kemur – það er alveg tryggt. En hvernig hún verður fyrir hvert og eitt okkar er annað mál. Hvernig hún verður fyrir almennt launafólk er svo það sem við getum barist í. Til þess þurfum við að snúa bökum saman og berjast saman.Góðar stundir.

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi