150 félagsmenn atvinnulausir í apríl
Skv. tölum frá Greiðslustofu atvinnuleysisbóta voru 150 félagsmenn AFLs án atvinnu í aprílmánuði - allan eða að hluta. Þetta er talsverð fækkun frá mars mánuði þegar tæplega 180 félagsmenn voru skráðir atvinnulausir. Þar af eru um 40 félagsmenn með skráð lögheimili utan félagssvæðis - þar af flestir á höfuðborgarsvæðinu en einnig á norðausturlandi. Athygli vekur að 23 eru skráðir atvinnulausir á Vopnafirði og Bakkafirði - sem er verulegt miðað við stærð þessara byggðalaga.
19 félagar eru atvinnulausir á Héraði og Seyðisfirði en 43 í Fjarðabyggð að Stöðvarfirði. Sunnan Stöðvarfjarðar og að Höfn eru aðeins 9 atvinnulausir og á Höfn og suður úr að Skeiðará eru 15 skráðir atvinnulausir.
Þetta er mesta atvinnuleysi sem skráð er hjá félaginu síðan 2014 þegar 164 voru á atvinnuleysiskrá í apríl. Síðustu þrjú ár hafa um 100 manns verið án atvinnu á þessum árstíma.