AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Starfsdagur starfsmanna grunnskólanna 2019

StarfsdagurGrunnsk2019

Félagsmenn AFLs er starfa í grunnskólum  á félagssvæði AFLs héldu sinn árlega starfsdag sl. föstudag.  75 félagsmenn mættu og þar með þurfti að flytja dagskránna úr fundarsal félagsins að Búðareyri 1 yfir í safnaðarheimili Reyðarfjarðarkirkju. Dagskráin hófst kl. 10 með erindi Ingibjargar Þórðardóttur um "kynvitund ungs fólks" og fjallaði hún um það hvernig einstaklingar finna sig utan hinna hefðbundnu kynskilgreininga og þau vandamál sem þá blasa við. Einnig var fjallað um "intersex" fólk og fordóma í garð beggja hópanna og hvernig við getum sem samborgarar - gert lífið aðeins léttara fyrir þá sem eru "kynsegin" eða "intersex". 

Erindi Ingibjargar var fróðlegt og var efni þess til umræðu í kaffihléum út daginn.  Síðan beindist dagskráin meira að félagsmönnum sjálfum og velferð þeirra og fjallaði Guðmundur Ingi Sigbjörnsson, fyrrv. skólastjóri, um kulnun í starfi.  Guðmundur fór vítt um völlinn og fékk mikil viðbrögð frá fundarmönnum þar sem fólk bar saman bækur sínar og reyndi að draga lærdóm af og deginum lauk síðan með yfirgripsmiklu erindi Hrannar Grímsdóttur, lýðheilsufræðings, sem fjallaði um lífsstíl og vellíðan og leiddi hópinn allan í jógaæfingum.

Þá var og fjallað um kjaramál og kom Hjördís Þóra, formaður AFLs, sem öllu jafna leiðir þennan dag á símafund með félagsmönnum úr húsi ríkissáttasemjara til að upplýsa fundarmenn um stöðu kjaraviðræðna en kjarasamningar þessa hóps sem þarna sat hafa verið lausir frá í vor.  Þá var og fjallað um innri málefni félagsins.

Karina Garska, umsjónarmaður á Búðareyri 1, hafði veg og vanda af veitingum á þessum vel heppnaða starfsdegi en að öðru leyti var undirbúningur á hendi formanns og Sigurbjargar Kristmundsdóttir, sérfræðings AFLs á Reyðarfirði.  Kvöldverður var snæddur í Randulfs sjóbúð og tókst vel.

Félagsmenn komu langa leið til að sitja þennan dag - eða frá Höfn í suðri og Vopnafirði í norðri og frá öllum skólum þar á milli.

 

Sjá fleiri myndir