AFL sendir blaðamönnum baráttukveðju! Verkfalli aflýst!
Tökumenn, ljósmyndarar og blaðamenn á vefmiðlum leggja niður störf í dag eins og tvo síðustu föstudaga og skv. fréttum verður ekki boðað til fundar í kjaradeilu blaðamanna fyrr en eftir helgi. AFL Starfsgreinafélag sendir blaðamönnum og Blaðamannafélagi Íslands baráttukveðjur í þessari kjarabaráttu og fordæmir hvers kyns verkfallsbrot sem beina atlögu gegn kjörum og afkomu launafólks.
Það er æ ljósara hversu þýðingamiklu hlutverki faglegir blaðamenn gegna í nútíma samfélagi - þar sem falsfréttir og grímulaus áróður hefur heltekið samfélagsmiðla og þannig skekkt verulega þá heimsmynd sem blasir við almenningi. Heiðarleg og málefnaleg umræða um mál samtímans eru undirstaða lýðræðis og frelsis einstaklinganna í samfélaginu. Þar gegna blaðamenn lykilhlutverki.