AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Ekkert umboð til breytinga á kjarasamningi:

asisk

Mikils misskilnings virðist gæta í fréttaflutningi um umboð forystumanna Alþýðusambandsins er varðar kaup og kjör félagsmanna aðildarfélaganna.  Við undirritun kjarasamninga verða þau umboð sem verkalýðsfélög veita landssamböndum óvirk.  Þegar samningur hefur verið samþykktur í atkvæðagreiðslu er hann kominn á og ekki hægt að breyta honum nema með aðkomu hlutaðeigandi stéttarfélags og atkvæðagreiðslu félagsmanna.

Annað gildir um lífeyrishluta kjarasamninga aðildarfélaga Alþýðusambandins.  Þar hefur miðstjórn ASÍ samningsumboð fyrir öll félög – en hefð er fyrir því að ef samið er um breytingu á iðgjöldum til lífeyrissjóða – fer sú breyting í sameiginlega allsherjaratkvæðagreiðslu allra félagsmanna aðildarfélaganna.

Vangaveltur um hugsanlega eftirgjöf launahækkana eru því harla óraunhæfar því enginn í miðstjórn ASÍ hefur neitt umboð aðildarfélaga til slíkra viðræðna.  Ef miðstjórn ASÍ hefði samið um lækkun mótframlaga til lífeyrissjóða – hefði þurft að vísa þeim samningi í allsherjaratkvæðagreiðslu þar sem sú samþykkt hefði efalítið verið felld.

AFL Starfsgreinafélag fagnar niðurstöðu meirihluta miðstjórnar og ítrekar að ekkert landssamband né Alþýðusambandið sjálft hefur umboð félagsins til að ræða breytingar á gildandi kjarasamningum. Launafólk um land allt er að taka á sig lífskjaraskerðingu en á sama tíma eru verið að velta launakostnaði 30.000 launþega að mestu leyti yfir á ríkissjóð. Ennfremur er verið að bjóða fyrirtækjum brúarlán, frestun á greiðslum opinberra gjalda og önnur úrræði til aðstoðar á þessum viðsjárverðu tímum.

Launafólk innan ASÍ hefur barist lengi fyrir því að fá lífeyrisréttindi á pari við það sem opinberir starfsmenn njóta og það er sárara en tárum taki að nýjum (fyrrverandi) varaforseta Alþýðusambandsins skuli detta í hug að bjóða þessi lífskjör alþýðufólks föl til að aðstoða launagreiðendur sem nú þegar eru þiggjendur stærstu björgunaraðgerða ríkissjóðs í sögu lýðveldisins.

Launafólk innan verkalýðsfélaga Alþýðusambandsins kýs sér forystu til að verja hagsmuni sína.   Það er fordæmalaust að forystufólk í íslenskri verkalýðshreyfingu hafi sagt af sér trúnaðarstörfum vegna þess að félagar þess hafi ekki vilja gangast undir kjaraskerðingarkröfur vinnuveitenda.

Samtök Atvinnulífsins hafa vísað til fordæmis frá ársbyrjun 2009 en það er villandi samanburður.  Þá voru samningar lausir og forsendunefndir beggja samningsaðila höfðu þá umboð til að slíta eða framlengja samninga.  Innan Alþýðusambandsins fór á þeim tíma fram víðtækt samráð við formenn félaga og þeir við sitt bakland – áður en það skref var stigið.  En það var stigið í umboði kjarasamnings og eftir atkvæðagreiðslu á formannafundi Alþýðusambandsins.  Það umboð er ekki til staðar nú.

 

Ályktun stjórnar AFLs Starfsgreinafélags 1. apríl 2020

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi