Það er nóg til!
Það þarf enginn að líða skort – það þarf enginn að þvælast á milli leiguíbúða í öryggisleysi. Það þarf enginn að neita sér um læknisþjónustu.
Það er okkar val að þetta sé þannig. Ekki okkar sem félagsmanna í verkalýðsfélagi heldur okkar sem kjósenda – okkar sem borgara þessa lands.
Vandamál Íslands er ekki fátækt landsins – við búum í ríku landi. Vandamál okkar er ekki fáfræði eða ofríki nágranna. Við erum vel menntuð þjóð, framsækin og tæknivædd. Við búum í einhverjum „frjálsasta“ heimshlutanum.
Okkar vandamál eru algerlega heimagerð. Við höfum valið þau sjálf – og þau hafa að mestu orðið til á síðustu þremur áratugum. Vandmálin okkar eru misskipting gæða landsins og ofríki þeirra auðugu.
Við mættum ofveiði á fiskistofnum okkar með því að setja á kvótakerfi. Það var skynsamleg ráðstöfun. Hvernig hins vegar hefur verið haldið um ráðstöfunarrétt og eignarrétt á óveiddum fiski er annað mál.
Þar hefur orðið einhver mesta eignatilfærsla sem þekkist á byggðu bóli – þar sem auðæfi landsins og þjóðarinnar hafa verið færð nokkrum fjölskyldum að gjöf. Þar hefur orðið til stétt auðmanna sem síðan hafa notað þessi sömu auðæfi til að kaupa sig til áhrifa í samfélaginu öllu.
Ísland er spillt land – og stjórnsýslan veikburða. Við höfum ef til vill lifað í þeirri barnatrú okkar að á Íslandi sé ekki spilling og engin stéttskipting. Atburðir liðinna ára færa okkur sanninn um að svo er ekki.
Skv. skoðun á Panamaskjölunum er talið að allt að 800 milljarðar hafi verið fluttir úr landi í skattaskjól síðustu 30 ár. Þessir fjármunir hafa orðið til á Íslandi en síðan horfið í skattaskjól og eru þar enn í felum. Af þessum eignum og tekjum af þeim eru ekki greiddir skattar.
Á meðan hefur skattbyrði á láglaunafólk og meðallaunafólk aukist – en skattbyrði auðmanna hefur minnkað. Íslenskt lág-og meðallaunafólk er með fjórðu hæsta skattbyrði sem þekkist í Evrópu á meðan Íslenskir auðmenn eru með lægstu skattbyrði allra norðurlandaþjóðanna. Skattbyrði nágrannþjóða er skýrð með sterku velferðarkerfi en velferðarkerfið á Íslandi er ekki sterkt og það hriktir í grunnstoðum þess.
Þetta eru ekki einhver náttúrulögmál. Þetta eru mannanna verk. Það hefur verið meðvituð ákvörðun að færa skattbyrði frá auðmönnum yfir á láglaunafólk. Það er meðvituð ákvörðun að veikja stoðir velferðarkerfisins. Það hefur líka verið meðvituð ákvörðun að veikja eftirlitsstofnanir þannig að yfirstéttin komist upp með skattaundanskot og aðra hvítflibbaglæpi.
Þetta gerist aðallega af því að auðstéttin á marga fulltrúa á alþingi en launafólk enga. Fyrir kosningar eru margir sem vilja vera fulltrúar launafólks – en eftir kosningar gleymist það að mestu. Við sem launafólk höfum reynst lin í eigin baráttu. Þau okkar sem teljum okkur vera félagshyggjufólk – dreifum okkur í marga flokka og flokksbrot – öll þykjumst við þekkja hinn eina rétta sannleika og ráðumst heiftarlega að öðru „félagshyggjufólki“ sem mögulega hefur annan „sannleika“.
Aðrir í okkar hóp sem trúa á athafnafrelsið og frjálshyggjuna elta auðmenn og bíða þolinmóð eftir brauðmolunum sem eiga að hrjóta af gnægtarborði yfirstéttarinnar. Svo er það hófsemdarfólkið sem heldur að með því að velja alltaf að gera engar breytingar – sé það að stuðla að stöðugleika. En ef núverandi ástand er vaxandi misrétti þá þýða engar breytinga – vaxandi misrétti.
Á meðan alþýða manna skiptist þannig í ótal fylkingar fylkja auðmenn liði og kaupa sér talsmenn bæði opinberlega og á leynd. Erindrekar auðmanna gæta hagsmuna þeirra á alþingi og fyrir dómstólum og í stjórnsýslu á meðan hagsmunir alþýðufólks eru eins og hver önnur skiptimynt í baráttunni um völdin. Þetta gerist af því við leyfum því að gerast. Og það er ekki eins og farið sé leynt með áformin – nú er Íslandsbanki í söluferli – þvert á vilja meirihluta þjóðarinnar – en enginn gerir neitt í því og við horfum bara á og æsum okkur upp á samfélagsmiðlum. Næst verður það Landsvirkjun og svo aðrar ríkisstofnanir sem gróðavon er í fyrir auðmenn og þeirra fylgifiska.
Á meðan hefur hálf þjóðin orðið að sérfræðingum um farsóttir og hinn helmingurinn um eldgos. Svo loga samfélagsmiðlar af heitum deilum um gæði og galla einstakra bóluefna eða hvort eldgos sé ræfill eða ekki – en á meðan stunda auðmenn ránsferðir um auðlindir þjóðarinnar og fara ekki einu sinni leynt með það.
Íslensk verkalýðshreyfing hefur lyft grettistaki á liðnum áratugum og það var einungis af því að af og til tókst að blása til órofinnar samstöðu um mikilvæga málaflokka. Baráttan var alltaf hörð og óvægin og fólk vissi þá hverjir voru vinir og hverjir ekki. Með samstöðu verkalýðshreyfingarinnar og þeim þingmönnum og stjórnmálamönnum sem rætur áttu í hreyfingunni tókst að tryggja hagsmuni alþýðufólks – en það var meðan verkalýðshreyfingin átti vini á alþingi.
Nú þegar vonandi farið er að sjá fyrir endann á heimsfaraldrinum fer að koma að skuldadögum. Aðgerðir síðustu mánaða hafa kostað hundruði milljarða og um leið og ástandið fer að teljast eðlilegt aftur þarf að borga þennan kostnað.
Það verður athyglisvert að sjá hvort stjórnmálamenn þora þá að reyna að sækja fé til auðmanna í gegnum skattakerfið eða hvort ráðist verður að velferðarkerfi landsins og framlög til tryggingamála, heilbrigðismála og menntamála verða skert og skattar á launafólk hækkaðir.
Það verður okkar verkefni á næst mánuðum að krefja vongóða frambjóðendur um skýr svör og veita svo stjórnvöldum aðhald. Vandamálið er bara að hér á landi reiknum við öll með því að stjórnmálamenn segi ósatt og standi ekki við fyrirheitin. En við kjósum þau samt aftur. Við þurfum ekki að kenna öðrum um það hvernig málum er háttað hér á landi. Okkur dugar að horfa í spegil.
Það er nóg til – við þurfum bara að skipta því betur.