Er Alþingi sama um alþýðuna
Nýtt fréttabréf AFLs er komið út en einu sinni á ári gefur félagið út þematengt fréttabréf í sérstöku broti. Að þessu sinni fjallar fréttabréfið um flokkspólitísk tengsl verkalýðshreyfingarinnar í gegnum árin. Alþýðusamband Íslands var í upphafi "verkalýðsarmur" Alþýðuflokksins svipað og er jafnvel enn fram á þennan dag á Norðurlöndunum hinum. Átök Alþýðuflokksfólks við Sósíalista og Kommúnista innan hreyfingarinnar ágerðust um miðja síðustu öld og einnig fóru hægri menn að blanda sér í baráttuna og Verslunarmannafélag Reykjavíkur var að lokum "dæmt" inn í Alþýðusambandið sem hafði neitað VR um aðild því það félag var lengi undir stjórn Sjálfstæðismanna.
Rætt er við nokkra fyrrum forystumanna Alþýðusambandsins sem tengdir voru inn í flokksstjórnmálin. Þá er rætt við nokkra trúnaðarmanna AFLs og loks er "drottningarviðtalið" við sameiningarsinnann Sigurð Hólm Freysson, varaformann AFLs, en hann stóð m.a. að sameiningu sveitarfélaga í Fjarðabyggð, sameiningu Lífeyrissjóða Austurlands og Norðurlands í Stapa Lífeyrissjóð og sameiningu stéttarfélaga á Austurlandi í AFL Starfsgreinafélag. Þá er og skemmtilegt viðtal við Smára Geirsson á Neskaupstað - en enginn er fróðari um sögu verkalýðshreyfingarinnar á Austurlandi en hann.
Þá er boðið upp á stjórnmálaprófið í blaðinu. Ertu sósíalisti, vinstri eða hægri krati eða kannski bara frjálshyggjupési?