Leiftursókn gegn lífskjörum
Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp sem getur kollvarpað stöðu launafólks til frjálsra kjarasamninga. Frumvarpið er á þá leið að flugrekendur geti stundað flug frá Íslandi með áhafnir sem búsettar eru á Íslandi en geti með leyfi ráðherra hunsað kjarasamninga eða miðað við erlenda kjarasamninga. Þá verði flugrekendum heimilt að miða laun flugliða við kjarasamninga í þeim löndum sem flugvélarnar eru skráðar í - eða flugfélögin telji sig hafa aðalstöðvar.
Þetta er bara fyrsta vers í því að brjóta niður samstöðu íslenskrar verkalýðshreyfingar og í stórkostlegum félagslegum undirboðum þar sem stétt íslenskra flugliða er skotmarkið. Þetta er gert í því skyni að "jafna samkeppnisstöðu" flugrekenda sem kjósa að eiga samkeppni um flug til landsins. Í þessu tilfelli er stefnt að því að jafna niður á við - þ.e. að færa kjör íslenskra flugliða niður til jafns við það sem lakast gerist. Hinn möguleikinn hefði auðvitað verið að jafna "upp á við" og gera flugfélögum sem hingað fljúga skylt að greiða ekki lakari laun en íslenskir flugliðar hafa en svo virðist að stjórnvöld vilji frekar sækja niður á við hvað varðar kjör almennings en að miða við það besta.
Þetta frumvarp er reyndar ekki nýtt af nálinni en er nú lagt fram sem stjórnarfrumvarp af samgönguráðherra og formann þess stjórnmálaflokks sem áður fyrr kenndi sig við samvinnuhugsjónina og baráttu fyrir betri lífskjörum almennings. Það er vandséð hver tilgangur þessa frumvarps er annar en sá að auðvelda hvers kyns "brask-og brall" flugfélögum sem þekkt eru að gegndarlausum brotum á kjörum áhafna sinna, að hasla sér völl á landinu og eflaust mega svo skattgreiðendur borga fyrir stækkanir á Keflavíkurflugvelli og uppbyggingu á aðstöðu fyrir þessi flugfélög.
Sambærileg þróun hófst reyndar fyrir áratugum síðan þegar "óskabörn þjóðarinnar" þ.e. stóru skipafélögin hófu að flagga skipum sínum út til hentifánalanda. Þannig tókst að fara framhjá kjörum íslenskra farskipasjómanna. Það þarf ekki fjörugt ímyndunarafl til að spá fyrir um framhaldið. Verður ráðherra næst gefin heimild til að losa útgerðir fiskiskipa undan íslenskum kjarasamningum og miða laun við kjarasamninga í heimalöndum sjómanna. Verður heimilt að ráða ræstingafólk til starfa á Íslandi og miða við kjarasamninga í Rúmeníu?
Það er brýnt að talsmenn launafólks á landinu hefji upp raust sína og standi vörð um hagsmuni launafólks. Ekki gera stjórnvöld það.