Um helmingur launakrafna er vegna erlendra félagsmanna
Alþýðusamband Íslands birtir í dag skýrslu um ástand á vinnumarkaði með sérstakri áherslu á innflytjendur og aðstæður þeirra. Í skýrslunni kemur fram að um helmingur launakrafna er aðildarfélög ASÍ gera fyrir hönd félagsmanna er vegna erlendra félagsmanna sem þó eru ekki nema um 20% vinnumarkaðarins. Rösklega helmingur innflytjenda segist í könnun, hafa orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum síðustu 12 mánuði. Frekar er brotið á ungu fólki en eldra. Hægt er að nálgast skýrsluna á vef Alþýðusambandsins - www.asi.is.
Þó ofangreind tala - þ.e. um helmingur launakrafna sé vegna erlends launafólks - gildi fyrir Alþýðusambandsfélögin í heild er hlutfallið mun hærra hjá t.d. AFLi. Án þess að við höfum tekið saman nákvæma tölfræði um þessi brot á félagssvæði AFLs er það tilfinning starfsmanna félagsins að stærstur hluti "launaleiðréttinga" sem félagið hefur milligöngu um fyrir sína félagsmenn sé fyrir ungt erlent launafólk sem starfar í ferðaþjónustu og hótel og veitingageiranum.
Þessi mál eru ekki alltaf stór og viðamikil - oft er nóg að hafa samband við launagreiðanda og útskýra reglur um vaktavinnu eða fara yfir tímaskýrslur og launaseðla og senda erindi með ósk um leiðréttingar. Önnur mál verða stærri og enda jafnvel fyrir dómstólum.
Það er verulegt hagsmunamál fyrir allt launafólk - innlent sem erlent, að launagreiðendur komist ekki upp með launaþjófnað. Skipulegur launaþjófnaður - hvort heldur stór eða lítill - er í raun félagsleg undirboð sem hafa langtímaáhrif til lækkunar kjara allra í viðkomandi atvinnugreinum. Það er því mikilvægt fyrir launafólk að hafa vakandi auga á sínum vinnustað og láta vita af misferli og beina launafólki sem verið er að brjóta á - til félagsins. Senda má erindi til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og við lesum íslensku, norðurlandamál (nema finnsku), ensku, pólsku og serbnesku/króatísku. Auk þess getum við staulast fram úr öðrum tungumálum með aðstoð gervigreindar.