Skattleysismörkin upp - styttri vinnuvika
Á kjaramálaráðstefnu AFLs sem lauk í dag lögðu félagsmenn fram hugmyndir að kröfugerð félagsins í komandi kjarasamningum. Boðaður hefur verið fundur trúnaðarráðs félagsins næstkomandi miðvikudag þar sem kröfur félagsins verða mótaðar. Á ráðstefnunni sem hófst í gær, föstudaginn 21. september, voru frummælendur Kristján Gunnarsson, formaður SGS, Þorvaldur Gylfason, prófessor við HÍ, og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs. Tillögur ráðstefnunnar voru hins vegar mótaður í hópavinnu ráðstefnugesta. Sjá nánar um ráðstefnuna.
Tillögur sem fram komu:
Í fjörugum umræðum sem fram fóru að lokinni hópavinnu ráðstefnugesta komu meðal annnars fram eftirfarandi tillögur:
1. Skattleysismörk verði hækkuð verulega og þannig leiðréttur mikill ójöfnuður sem bitnað hefur mest á láglaunafólki og þeim sem lifa á örorkubótum eða öðrum lifeyri.
2. Ekki verði samið til lengri tíma en tveggja ára og það með „rauðum strikum".
3. Eftirvinnuprósenta verði hækkuð og reynt að draga úr vægi yfirvinnu hjá launafólki.
4. Vinnutími verði styttur - bent var á að Íslenskum vinnumarkaði er daglegur vinnutími mun lengri en í þeim löndum sem við berum okkur mest við.
5. Kauptaxtar verði hækkaðir verulega og færðir nær svokölluðum "markaðslaunum".
6. Samningsumboð verði í höndum SGS - meirihluti ráðstefnugesta var hlynntur því að SGS færi með samningsumboð aðildarfélaga og samið yrði á breiðum sameiginlegum grundvelli. Þó voru uppi sjónarmið þess efnis að AFL héldi samningsumboðinu og gengi sjálft til samninga.
Rétt er að taka fram að ofangreindir punktar eru aðeins atriði sem fram komu í umræðum á ráðstefnunni en ekki voru greidd atkvæði um sérstakar tillögur. Fundargerð ráðstefnunnar verður síðan lögð fyrir trúnaðarráð félagsins sem er hin eiginlega samninganefnd þess.
Um ráðstefnuna sjálfa:
Ráðstefna AFLs var sótt af um 40 þátttakendum en reiknað hafði verið með rösklega 50 félögum. Réttir, steypuframkvæmdir og váleg veðurspá spilltu því nokkuð fyrir fundarsókn. Kristján Gunnarsson, formaður SGS, fjallaði í erindi sínu um SGS og stöðu AFLs innan sambandsins. Hann fjallaði einnig um nauðsyn samstöðu í komandi kjarasamningum og fór yfir stöðu kjaramála síðustu ár.
Að lokinni framsögu Kristjáns voru kjörnir fulltrúar AFLs á þing SGS 2007 svo og ársfund ASÍ. Síðan var ný heimasíða félagsins kynnt og notkunarmöguleikrar innri vefs síðunnar til samskipta m.a. trúnaðarmanna og stjórnar og starfsfólks.
Þá snæddu ráðstefnugestir kvöldverð á Hótel Framtíðinni á Djúpavogi, en þar var þessi ráðstefna háð. Laugardagsmorguninn hófst síðan með framsögu Þorvaldar Gylfasonar, prófessors í hagfræði, en hann fór mikinn um ýmis álitamál verkalýðshreyfingarinnar. Meðal annars skoðaði hann ýmis gögn sem sýndu velferð og afkomu og þá sérstaklega með tilliti til vinnuframlags. Einnig ræddi Þorvaldur nokkuð Efnahagsbandalag Evrópu og spurninguna um aðild Íslands eða ekki. Taldi hann flokkspólitík hafa spillt mikið fyrir málinu, bæði í röðum Alþýðusambands Íslands og innan raða Samtaka atvinnulífisins.
Var gerður góður rómur að máli Þorvaldar og að lokinni framsögu hans skiptu gestir sér í hópa og ræddu málin innbyrðis en að því búnu sátu Þorvaldur, Kristján og Hjördís Þóra í pallborði og svöruðu fyrirspurnum og urðu af líflegar umræður.
Trúnaðarmenn og kjaramál:
Að loknum hádegisverði ræddi Maríanna Traustadóttir, Menningar-og fræðslusambandi alþýðu, stöðu og fræðslu trúnaðarmanna verkalýðshreyfingar og ræddi einnig jafnréttismál. Síðan hafði Hjördís Þóra framsögu um kjaramál en að þeirri framsögu lokinni tóku vinnuhópar aftur til starfa en ráðstefnunni lauk síðan með umræðum í sal þar sem vinnuhópar kynntu umræður sínar og einstök atriði voru rædd nánar.
Góður starfsandi var á ráðstefnunni, sem var sótt af félagsmönnum AFLs allt frá Vopnafirði og suður á Höfn í Hornafirði.