Rýnihópur um húsbyggingu
AFL Starfsgreinafélag hefur keypt húseignina að Búðareyri 5 á Reyðarfirði en húsið þar er ætlað til niðurrifs og ljóst er að á lóðinni verður unnt að byggja 1000 - 2000 fermetra hús - eða mun stærra en AFL þarf undir Reyðarfjarðarskrifstofu sína. Því standa félaginu ...
opnir ýmsir kostir, m.a. að leita samvinnu við ýmsar stofnanir er tengjast atvinnu-og fræðslumálum og skapa á lóðinni hús "vinnumarkaðar-og símenntunar" ef samstaða næðist um slíkt.
Þá er einnig sá kostur opinn að semja við verktakafyrirtæki um byggingu húss þar sem AFL fengi húsnæði við hæfi en húsið yrði að öðru leyti í frjálsri sölu á vegum verktakans.
Ljós er að skrifstofa félagsins á Reyðarfirði er orðin of lítil fyrir starfssemina og ennfremur er brýn þörf á góðum fundarsal á þessu svæði sem nokkuð hefur hamlað starfssemi félagsins.
Þá er staðsetning lóðarinnar talin góður kostur með tilliti til framtíðaruppbyggingu á Reyðarfirði og Fjarðabyggðar allrar þar sem verslun og þjónusta hefur í vaxandi mæli færst á þetta svæði.
Til að undirbúa málið fyrir stjórn félagsins var boðaður svokallaður rýnifundur þar sem nokkrir félagsmenn voru boðaðir án undirbúnings og nokkuð af starfsfólki félagsins svo og varaformaður og formaður IMA settust yfir málin með arkitekt, verkfræðingi og fulltrúa fjármálageirans. Guðný Hauksdóttir, starfsmaður ALCOA, tók að sér að stýra vinnu rýnishópsins, en mikilvægt er talið við vinnu sem þessa, að stjórnandi hópsins sé sóttur út fyrir hann.
AFLs fólki til aðstoðar á fundinum voru þeir Aðalsteinn Þórahallsson, byggingatæknifræðingur frá Hönnun VGK, Einar Ólafsson, Arkis teiknistofu, og Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri Landsbankans.
Bráðabirgðaskýrsla vinnuhóps AFLs, sem m.a. mun byggja á skýrslu rýnisstjóra, mun verða lögð fyrir stjórn AFLs í næstu viku, en endanlega tillögur fyrir stjórnarfund í janúar.