Kjaramál: Aðgerðir í undirbúningi
Starfsgreinasamband Íslands, landssamband almenns verkafólks, hefur skipað aðgerðarnefnd vegna stöðu í kjaraviðræðum við atvinnurekendur. Samningaviðræður hafa staðið síðan í byrjun desember en litlum árangri skilað. Því má búast við að nefndin skili tillögum til framkvæmdastjórnar SGS í næstu viku um mögulegar verkfallsboðanir.
Í nefndinni eiga sæti aðilar frá öllum landshlutum og þar með fulltrúi frá AFLi. Flóabandalagið mun væntanlega vera farið að huga að aðgerðum - en SGS og Flóabandalagið svokallaða, Efling, Hlíf og Suðurnes (þ.e. félögin á höfuðborgarsvæðinu) koma fram sameiginlega í samningaviðræðum þó svo að um tvær kröfugerðir sé að ræða og tvo kjarasamninga.
Kröfum Starfsgreinasambandsins m.a. um tveggja ára samningstíma hefur verið hafnað og fulltrúar ríkisvaldsins neituðu tillögum SGS um aðgerðir í skattamálum. Staða samningamála er því komin aftur á byrjunarreit og samninganefnd SGS mat því rétt að huga að aðgerðum. Aðgerðarhópur sambandsins mun væntanlega hittast á þriðjudag.