Af hverju tekur svona langan tíma að fá launin mín greidd?
Stundum kemur launakrafa til innheimtu áður en vinnuveitandi verður gjaldþrota. Þá þarf að fara út í eftirfarandi aðgerðir hjá lögmönnum AFLs:
- Reikna þarf út launakröfu og senda innheimtubréf og ítrekunarbréf til vinnuveitanda. Getur tekið 2 vikur til 1 mánuð.
- Stefna þarf vinnuveitandanum fyrir dóm. Það þarf að gera stefnu, láta birta stefnuna með ákveðnum fyrirvara (3 dagar til 1 mánuður), þingfesta hana á fyrirfram ákveðnum dögum (sem eru 2 í mánuði á Austurlandi, þó ekki í júlí og ágúst) og að lokum þarf að bíða eftir dómi ef tekið er til varna í málinu en ella áritaðri stefnu ef það er ekki gert. Þetta getur tekið 2 til 18 mánuði (2 mánuði ef stefna fæst árituð, 18 mánuði ef málið fer í málflutning bæði í Héraðsdómi og Hæstarétti – það er þó sjaldgæft).
- 15 dögum eftir að dómur er upp kveðinn eða árituð stefna fæst send má krefjast fjárnáms hjá vinnuveitanda. Send er fjárnámsbeiðni og sýslumaður boðar til fyrirtöku í fjárnáminu, stundum þarf að boða aftur með lögreglu ef vinnuveitandi mætir ekki o.s.frv. Ef fjárnámi lýkur með árangri þarf að fara fram á nauðungarsölu en það er sjaldgæft í vinnulaunamálum og því verður ekki farið frekar yfir það hér. Algengara er að fjárnámi sé lokið án árangurs. Þetta ferli getur tekið ca. 2 til 4 mánuði.
Stundum koma kröfur til innheimtu hjá lögmanni AFLs þegar komið er árangurslaust fjárnám hjá
vinnuveitanda og þá er hann að byrja á þessu stigi:
- Krefjast þarf gjaldþrotaskipta hjá Héraðsdómi. Dómurinn sendir boðun til vinnuveitanda og tekur málið fyrir, oft 1 til 3 mánuðum eftir að það berst. Einu sinni er hægt að fresta málinu í 4 vikur en ekki oftar. Síðan er vinnuveitandi úrskurðaður gjaldþrota. Þetta ferli getur tekið 1 til 5 mánuði. Stundum kemur AFL að málinu á miðju þessu stigi.
Stundum koma kröfur til innheimtu hjá lögmanni AFLs þegar vinnuveitandi er orðinn gjaldþrota og þá er hann að byrja á þessu stigi.
- Þegar vinnuveitandi er orðinn gjaldþrota þarf skiptastjóri þrotabúsins að auglýsa
gjaldþrotaskiptin. Það er almennt eitt af hans fyrstu verkum og algengt að auglýsing birtist í Lögbirtingablaði ca. 2 vikum eftir að félag er úrskurðað gjaldþrota. Þetta tekur því 2 vikur. - Þegar auglýsing birtist byrjar að líða 2 mánaða innköllunarfrestur og á þeim tíma þarf
lögmaður AFLs að senda launakröfu til skiptastjóra og afrit hennar til ábyrgðasjóðs launa.
Engu skiptir um framgang kröfunnar hvort hún er send á fyrsta degi innköllunarfrests eða síðasta. Þetta tekur því 2 mánuði. Stundum kemur AFL að málinu á miðju þessu stigi. - Þegar þessi innköllunarfrestur er liðinn fer skiptastjóri yfir kröfuna og lætur í ljós afstöðu sína til hennar á skiptafundi sem haldinn er oft. ca 1 mánuði eftir að þessi innköllunarfrestur er liðinn. (Oftast eru kröfur samþykkar en ef þær eru það ekki getur þurft að fara með þær fyrir dóm, hafi dómur ekki fjallað um þær áður, og þá getur það tekið allt að svipuðum tíma og skv. lið 2 hér að ofan. Það er þó sjaldgæft). Séu kröfur samþykktar sendir skiptastjóri almennt jákvæða umsögn til ábyrgðasjóðs launa á þessum tímapunkti en það getur tekið lengri tíma. Þetta tekur oft 2 vikur til 2 mánuði.
- Næst tekur við bið eftir að ábyrgðasjóður launa greiði kröfurnar samkvæmt reglum sínum.
Kröfurnar fást líka stundum greiddar beint úr þrotabúunum en það er ekki algengt. Það getur því miður tekið mjög langan tíma, oft 6 mánuði til 1 ár og óvíst að ábyrgðasjóður greiði kröfurnar að fullu, sbr. reglur sem um það gilda.