Orlofsdagar - lenging hjá sumum
Í samningum við Samtök atvinnulífsins sem gerðir voru í febrúar urðu breytingar á orlofi. Engar breytingar urðu á lágmarksorlofinu, það er óbreytt 24 dagar og 10,17% af öllu kaupi. Orlofsuppbætur. Breytingarnar koma síðan inn til þeirra sem lengur hafa starfað með eftir farandi hætti:
Verkafólk
Verkafólk sem unnið hefur 5 ár í sama fyrirtæki eða 10 ár í sömu starfsgrein skal eiga rétt á orlofi í 25 virka daga og orlofslaunum sem nema 10,64%. Með sama hætti öðlast verkafólk sem unnið hefur 10 ár hjá sama fyrirtæki 29 daga orlofsrétt og 12,55% orlofslaun. Réttur þessi tekur gildi 1. maí 2008 þannig að hærri orlofsprósentan er greidd frá þeim tíma en dagurinn kemur til töku á orfsárinu sem hefst 1. maí 2008. Hinn 1. maí 2010 lengist rétturinn eftir 10 ára starf í sama fyrirtæki í 30 daga og orlofslaun verða 13,04%. Starfsmaður sem hefur fenginn aukinn orlofsrétt vegna starfa í sama fyrirtæki öðlast hann að nýju eftir þrjú ár hjá nýjum vinnuveitanda, enda hafi rétturinn verið staðreyndur.
Verslunarmenn
Eftir 5 ára starf í sömu starfsgrein skal starfsmaður hafa 25 daga orlof og skulu orlofslaun vera 10,64%. Eftir 5 ára starf í sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 26 daga orlof og skulu þá orlofslaun vera 11,11%. Eftir 10 ára starf hjá sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 29 daga orlof og skulu þá orlofslaun vera 12,55%. Á orlofsárinu sem hefst 1. Maí 2009 breytast 29 dagar í 30 daga og 26 dagar í 27 daga.( Réttur þessi tekur gildi 1. maí 2008 þannig að hærri orlofsprósenta er greidd frá þeim tíma en dagurinn kemur til töku á orfsárinu sem hefst 1. maí 2008. Áunninn réttur vegna starfa í sama fyrirtæki endurnýjast eftir þriggja ára starf hjá nýju fyrirtæki, enda hafi rétturinn verið sannreyndur.
Heimilt er að veita orlof umfram 20 daga að vetri nema um annað semjist.
Málmiðnaðarmenn
Starfsmaður, sem unnið hefur 5 ár í sömu starfsgrein á rétt á orlofi í 25 virka daga og orlofslaunum sem nema 10,64%.
Starfsmaður, sem unnið hefur 10 ár í sömu starfsgrein á rétt á 27 virkum dögum og 11,59% orlofs‐launum.
Starfsmaður sem unnið hefur 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á 28 virkum dögum og 12,07% orlofslaunum.
Starfsmaður sem unnið hefur 10 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 29 virka daga og orlofslaunum sem nema 12,55%. Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2009 breytast 29 dagar í 30 daga og orlofsprósentan í 13,04%. Starfsmaður sem öðlast hefur aukinn orlofsrétt vegna starfs hjá sama vinnuveitenda öðlast hann að nýju hjá nýjum vinnuveitanda, eftir þriggja ára starf, enda hafi rétturinn verið sannreyndur. Námstími iðnnema í fyrirtæki telst til vinnu í starfsgrein eða til vinnu innan sama fyrirtækis. Veita ber a.m.k. 20 virka daga, á tímabilinu 2. maí til 30. september. Orlof umfram það má veita utan þessa tímabils og ákvarðast með minnst eins mánaðar fyrirvara.
Byggingamenn
Þeir sem starfað hafa lengur en 5 ár í iðn sinni skulu fá fjóra daga til viðbótar, í heild 28 daga, og hafa orlofsprósentu sem er 12,07%. Starfsmaður sem unnið hefur samfellt 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á 29 virkum dögum og 12,55% orlofslaunum Starfsmaður sem unnið hefur samfellt 10 ár í sama fyrirtæki á rétt á 30 virkum dögum og 13,04% orlofslaunum.
Starfsmaður sem öðlast hefur aukinn orlofsrétt vegna starfs hjá sama vinnuveitenda öðlast hann að nýju hjá nýjum vinnuveitanda, eftir þriggja ára starf, enda hafi rétturinn verið sannreyndur.
Námstími iðnnema í fyrirtæki telst til vinnu í starfsgrein eða til vinnu innan sama fyrirtækis.
Veita ber a.m.k. 20 virka daga, á tímabilinu 2. maí til 30. september. Orlof umfram það má veita utan þessa tímabils og ákvarðast með minnst eins mánaðar fyrirvara.
Þeir sem samkvæmt ósk atvinnurekanda fá ekki 20 orlofsdaga á sumarorlofstímabili eiga rétt á 25% álagi á það sem vantar á 20 dagana.