Hitaveita og heitir pottar á Einarsstaði?
Nú er að hefjast á Egilsstöðum fundur með Hitaveitu Fljótsdalshéraðs, eigendum sumarhúsa í nágrenni Einarsstaða og fulltrúum orlofsbyggðarinnar á Einarsstöðum. Í kjölfar verður síðan fundur þeirra verkalýðsfélaga sem eiga hús á Einarsstöðum. Fundarefnið er hvort koma eigi upp hitaveitu í orlofsbyggðinni.
Á Einarsstöðum eru alls 33 orlofshús í eigu félaga innan ASÍ og þar af á AFL Starfsgreinafélag 19 hús. Nýting húsana síðustu vetur hefur verið mjög góð enda mikil eftirspurn á húsnæði síðustu ár vegna framkvæmda.
Það hafa lengi verið uppi raddir um að hitaveituvæða byggðina og koma upp heitum pottum við orlofshúsin en löng vegalengd, eða 10 km, frá aðallögn Hitaveitu Fljótsdalshéraðs og lágt hitastig á vatninu hefur staðið í veginum.
Stjórn orlofsbyggðarinnar hefur síðustu misseri átt í viðræðum við hitaveituna og sýnist mönnum að hægt sé að leysa þessi vandamál - einkum ef aðrir sumarhúsaeigendur og notendur á leiðinni slást í hópinn.
Þar sem pottum hefur verið komið fyrir við orlofshús hefur nýting húsana, sérstaklega að vetrarlagi, batnað verulega.