Miðstjórn ASÍ á Kárahnjúka
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mun halda reglubundinn miðstjórnarfund sinn á Egilsstöðum seinnipartinn í dag, en miðstjórn heldur reglulega fundi sína fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Hópurinn kom með morgunvélinni til Egilsstaða þar sem Oddur Friðriksson, yfirtrúnaðarmaður á Kárahnjúkasvæðinu tók á móti þeim og mun fylgja miðstjórnarfólki um framkvæmdasvæðið á Fljótdalsheiði fyrir fund. Þetta er sennilega síðasta heimsókn Grétars Þorsteinssonar, forseta ASÍ, á Austurland í þessu æðsta embætti verkalýðshreyfingarinnar.
Grétar hefur verið tíður gestur á ráðstefnum og fundum AFLs Starfsgreinafélags síðustu árin og var hans saknað á kjaramálaráðstefnu félagsins um síðustu helgi en vegna anna komst hann ekki á Neskaupstað. En Grétar hefur tilkynnt að hann muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu í forsetastól og mun því láta af störfum sem forseti ASÍ í lok október nk.
Miðstjórnin hafði boðið Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur, formanni AFLs, að snæða kvöldverð með hópnum að loknum miðstjórnarfundi, en Hjördís er upptekin við vinnustaðaheimsóknir og annað starf á suðursvæði AFLs og varð því að afþakka gott boð.