Stefnumarkandi ákvörðun?
Hið hefðbundna ferli við gjaldþrot fyrirtækja er að viðkomandi stéttarfélög safna gögnum um launakröfur, orlofskröfur og önnur réttindi er launafólk á kröfu á vegna starfa við fyrirtækið. Eftir árangurslaus fjárnám er síðan óskað gjaldþrotaskipta og þegar sá úrskurður fæst gefur þrotabússtjóri umsögn um kröfurnar, fáist þær ekki greiddar úr þrotabúinu. Að svo búnu fara kröfurnar og umsögn þrotabúsins til Ábyrgðarsjóðs launa og hlýtur afgreiðslu þar.
Ábyrgðarsjóður greiðir nú að hámarki 345.000 kr. á mánuði í að hámarki 3 mánuði. Miðað við upplýsingar Hagstofu Íslands voru meðallaun í fjármálageiranum á árinu 2007 610.000 kr. og algengt að uppsagnarfrestur bankastarfsfólks sé 6 mánuðir, virðist sem ríkissjóður ætli að snarauka rétt fólks til launa við gjaldþrot fyrirtækja.
Því má bæta við að algengt er að félagar almennra verkalýðsfélaga þurfi að bíða allt að eitt ár eftir greiðslum úr ábyrgðarsjóði þar sem ferill málsins tekur talsverðan tíma. Ennfremur að ef félagsmenn okkar skrá sig ekki í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun þegar í stað, fellur réttur þeirra til launa niður þann tíma sem þeir ekki geta sýnt fram á virka atvinnuleit.
Pistilhöfundur heimasíðu AFLs hefur mikla samúð með því starfsfólki bankastofnana sem hefur mátt þola mikið álag síðustu daga og nú síðast fjöldauppsagnir. Við fögnum því þessari niðurstöðu stjórnvalda en munum gera skýlausa kröfu til að félagsmenn AFLs njóti sömu kjara, komi til þess að fyrirtæki hér á Austurlandi fari í þrot. Á síðustu árum hafa félagsmenn AFLs sem og annarra verkalýðsfélaga tapað verulegum fjármunum með því að launakröfur þeirra hafa verið umtalsvert hærri en hámark Ábyrgðarsjóðs.
Í því ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu er nauðsynlegt að skapa einingu og samstöðu og þá er ekki boðlegt að félagsleg réttindi fari eftir starfsstétt eða þjóðfélagsstöðu.