Verkalýðshreyfingin í naflaskoðun
Verkalýðshreyfingin þarf að fara faglega yfir sín mál á ársfundi ASÍ sem hefst á fimmtudag, segir Hjördís Þóra, formaður AFLs, en félagið lýkur undirbúningi fyrir þátttöku sína á ársfundi Alþýðusambandsins með stjórnarfundi annað kvöld. "Við þurfum að hverfa nær upprunanum nú þegar nýfrjálshyggjan hefur nánast lagt atvinnulíf landsins í rúst":
Hjördís segir að verkalýðshreyfingin þurfi að skoða uppruna sinn betur. "Við höfum axlað sífellt meiri ábyrgð af velferð alls þjóðfélagsins og þar á meðal atvinnuveganna á meðan við höfum kannski fjarlægst upprunalegan tilgang verkalýðsfélaganna sem var hagsmunagæsla og kjarabarátta okkar félagsmanna.
Þetta hefur valdið því að sífellt fleiri félagsmanna okkar upplifa að aðrir hópar í þjóðfélaginu klifri eftir bakinu á okkur og kræki sér í stærri sneiðar af kökunni á meðan okkar félagsmenn taka ábyrgðina.
Á komandi mánuðum verður brýnt fyrir okkur innan ASÍ að fara vel yfir okkar mál áður en við setjumst að samningaborði til að tryggja að það verði ekki einungis félagsmenn okkar sem vinna á taxtalaunum sem greiða herkostnað frjálshyggjunnar."
Hjördís benti á að endurskoðun launaliða kjarasamninga væri ekki fyrr en í febrúar og því góður tími fyrir hreyfinguna til að setja sér skýr samningsmarkmið. "Það er gríðarlega mikilvægt að við förum ekki fram í flumbrugangi og gefum eftir endurskoðun okkar núna því það veit enginn ennþá hvernig lending efnahagslífsins verður og hvernig atvinnulífið mun standa.
Það er ljóst í mínum huga að það er tækifæri til mikillar sóknar nú í félagslegum réttindamálum og nauðsynlegt að lagfæra ójöfnuð og klíkuskap sem viðgengist hefur í þjóðfélaginu og kom best í ljós í þeirri einkavinavæðingu sem nú hefur steypt efnahagslífinu nánast fyrir björg."
Hjördís sagði að fulltrúar AFLs myndu leggja fram tillögu á ársfundi Alþýðusambandins um þá vinnu sem AFL telur að vinna þurfi innan hreyfingarinnar til undirbúnings endurskoðunar launaliða kjarasamninga.