Einhliða kjaraskerðingar standast ekki!
Full ástæða er til að benda félagsmönnum AFLs á að þrátt fyrir erfiðleika í efnahagsmálum gilda kjarasamningar, lög og reglur ennþá á vinnumarkaði. Ekki er hægt að breyta einhliða ákvæðum ráðningarsamninga nema með því að segja þeim ákvæðum upp með sama fyrirvara og uppsagnarfrestur er.
Mörg fyrirtæki á Austurlandi hafa reynt að mæta samdrætti með hagræðingu síðustu vikur og oftast hefur það verið í samráði og samvinnu við starfsfólk, trúnaðarmenn og AFL Starfsgreinafélag. Það er því miður að nokkur fyrirtæki skuli notfæra sér bágt efnahagsástand til að beita bolabrögðum til að lækka laun og ganga á ýmsan hátt á rétt starfsmanna.
AFL Starfsgreinafélag hvetur félagsmenn sína til að hafa samband við skrifstofur félagsins áður en það skrifar undir nýja eða breytta ráðningarsamninga.