Almenningur hefur skömm á stjórnvöldum
Á stjórnarfundi AFLs Starfsgreinafélags í gærkvöld var eftirfarandi ályktun samþykkt:
"Stjórn AFLs Starfsgreinafélags undrast aðgerðarleysi stjórnvalda í þeim vanda sem efnahagsmál þjóðarinnar eru í . Þolinmæði íbúanna eru á þrotum og mótmæli á götum úti aukast frá degi til dags.
Siðferði í viðskiptum og æðstu stjórnsýslu er á því stigi að almenningur hefur orðið skömm á þeim sem stýrt hafa málum síðustu ár. Rekja má þá stöðu sem þjóðin stendur í að hluta til úreltra stjórnarhátta, klíkuskapar og fúsks á æðstu stigum stjórnsýslu. Eftirlitsstofnanir og löggjafinn hafa setið andvaralaus á meðan nýríkir auðmenn, sem auðguðust á gjörspilltu einkavinavæðingarferli þáverandi stjórnar, hafa lifað í loftbóluheimi sýndarveruleika og matadorpeninga. Komið er að skuldadögum og nú er það þjóðin sem skal borga.
Velferðarkerfi okkar, lífeyrissjóðir, heilbrigðisþjónusta, menntakerfi og menningarstofnanir eru undir hnífnum. Sitjandi ríkisstjórn er að senda Ísland inn í þriðja heiminn í hóp þróunarríkja.
Almenning rekur í rogastans yfir fréttum af viðskiptum sem stunduð hafa verið á kostnað almennings og almennra hluthafa og stjórnvöld láta óátalin. Hinir seku ganga enn lausir.
Almenningur á Íslandi hefur fengið nóg. Við krefjumst byltingar í stjórnsýslu, siðvæðingar og endurskoðunar á grunngildum. Við krefjumst þess að þeir sem hafa valdið þjóðarhruni – verði kallaðir til ábyrgðar. Núverandi ríkisstjórn er óhæf og rúin trausti. Tímabært er að aðrir taki við."