Hæstiréttur staðfestir dóm
Fyrirtækið sem um ræðir hefur um árabil haft erlenda starfsmenn á sínum snærum og var þetta þriðja mál á tveimur árum sem AFL hafði afskipti af. Héraðsdómur dæmi í fyrravor í tveimur málanna og var í öðru þeirra fyrirtækið dæmt til að greiða fyrrum starfsmanni 35.000 krónur auk þess sem fyrirtækið var dæmt til að greiða allan málskostnað og má meta kostnað þess á um 700.000.
Í málinu sem Hæstiréttur dæmdi í gær, hafði starfsmaðurinn sem hrökklaðist frá störfum og var peningalaus og úrræðalaus í Reykjavík boðist til að ganga að sátt ef hann fengi 75.000 - 100.000 kr. greiðslu enda var hann þá að reyna að komast aftur til síns heima. Þrátt fyrir vilyrði um að manninum væri veitt úrlausn barst greiðslan aldrei og hóf því lögmaður AFLs innheimtu fyrir hans hönd. Þegar að innheimtu kom námu kröfur mannsins 585.000 vegna vangoldinna launa og skýrðist það m.a. af launum undir ráðningarsamningi, ágreiningi um tímaskrift og frádráttarliði á launaseðlum sem ekki voru taldir réttlætanlegir.
Auk 585.000 krónanna sem fyrirtækið var dæmt til að greiða, greiðir það að auki vexti af upphæðinni í tvö ár svo og málskostnað fyrir héraðsdómi og hæstarétti. Það er því ljóst að þau tvö mál sem um ræðir hafa kostað fyrirtækið á þriðju milljón króna en unnt hefði verið að ljúka þeim fyrir brot af þeirri upphæð fyrir tveimur árum.
Þriðja málinu sem AFL hafði afskipti af lauk með fullnaðargreiðslu fyrirtækisins til fyrrverandi starfsmanns 2005.