Fundaferð gengur vel
Fundirnir hafa snúist um annars vegar stöðu gildandi kjarasamnings á almennum vinnumarkaði en samkvæmt honum á taxtahækkun upp á 13.500 / 17.500 að koma til framkvæmda 1. mars - en uppi hafa verið hugmyndir um að þeim verði frestað með samþykki verkalýðshreyfingarinnar. Hins vegar hefur verið til umræðu það ástand sem nú ríkir í efnahags-og samfélagsmálum á landinu - og sú hætta sem blasir við velferðarkerfi þjóðarinnar.
Formaður AFLs, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, hefur kynnt sjónarmið þau sem uppi eru varðandi frestun taxtahækkunar kjarasamninga og hafa félagsmenn AFLs tekið fálega í þá hugmynd að verkalýðshreyfingin bjóði fram frestun á umræddri taxtahækkun enda sé vandi heimilanna ekki minni en vandi fyrirtækja.
Þá hefur það sjónarmið verið ofarlega á fundunum að treysti fyrirtækin sér ekki til að standa við samningana sé rétt að þau segi þeim upp sjálf enda var upphaflega gert ráð fyrir að samningarnir væru til eins árs með framlengingarmöguleikum en samningsaðilar þurfa að taka afstöðu til mögulegrar framlengingar samninga nú í febrúar.
Kröfur um siðferðilega hreinsun í fjármála og stjórnkerfi eru háværar á fundum AFLs og er ljóst að almenningi blöskrar framferði fjármálamanna síðustu ár og andvaraleysi stjórnvalda og eftirlistsstofana. Þá er félagsmönnum AFLs ljóst að næstu ár verða erfið alþýðu fólks og að það muni reyna á afkomu heimila að standa undir þeim miklu fjárhagsskuldbindingum sem frjálshyggjan hefur steypt þjóðinni í.
Á vinnustaðafundum félagsins hefur komið fram síðustu daga að fólk er ekki reiðubúið til að axla þær byrðar sem við blasa nema tryggt sé að hér verði farið í algera endurskoðun grunngilda þjóðfélagsins.