Skrifað undir framlengingu samninga: Lágmarkslaun hækka!
Rétt í þessu var skrifað undir frestun kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Launahækkunum sem koma áttu til framkvæmda 1. mars n.k. er frestað fram á sumar. Hins vegar hækkar tekjutrygging eða lágmarkstaxtar úr 145 þúsund krónum í 157 þúsund krónur.
Endurskoðun kjarasamninga er samkvæmt samkomulaginu frestað til 1. júlí 2009. „Það var skynsamlegt að fresta þessu. Hins vegar var staðan þannig, bæði vegna hækkunar atvinnuleysisbóta og eins vegna vaxandi atvinnuleysis, að það var nauðsynlegt að hækka tekjutrygginguna til þess að tryggja að það væri ótvríræður hvati fyrir fólk til að vera í vinnu, frekar en að leita í atvinnuleysið,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Tekjutrygging hækkar úr 145 þúsund krónum í 157 þúsund eða um 12 þúsund krónur. Tekjutrygging er því komin upp fyrir grunnatvinnuleysisbætur sem eru nú 149.523 krónur á mánuði.
Ekki þarf að bera samkomulag ASÍ og SA undir atkvæði heldur telst um endanlega samþykkt að ræða.(Tekið af vef mbl.)