AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Ályktun kjaramálaráðstefnu AFLs

thumb_kjaramalaradstEftirfarandi ályktun var samþykkt á kjaramálaráðstefnu AFLs Starfsgreinafélags sl. laugardag. Í stað umræðu um niðurfellingu skulda og rýrnandi kaupmátt - beindi ráðstefnan augum sínum að siðferði í viðskiptum og því siðrofi sem orðið hefur í samfélaginu og hvernig unnt væri að byggja upp réttlátt þjóðfélag til frambúðar. Ályktunin fer hér á eftir:

Kjaramálaráðstefna AFLs Starfsgreinafélags lýsir áhyggjum af siðrofi og rofnu trausti í samfélaginu. Með hruni bankakerfis fyrir ári síðan kom í ljós að hagkerfi landsins stóð að hluta á loftbólu sem fyllt var tómum fyrirheitum frjálshyggju og einkavæðingar og óhefts frelsis  fjármagns.
Fullkominn forsendubrestur hefur orðið á margvíslegum viðskiptum liðinna ára og almenningur situr eftir með sárt ennið – í þeirri vissu að það er enginn til að bera tjónið og að skaðanum verður öllum velt yfir á samfélagið í heild.

AFL Starfsgreinafélag lýsir áhyggjum af framtíðarþjóðfélaginu nema okkur takist að endurvinna traust milli aðila, einstaklinga og fyrirtækja, þegna þjóðfélagsins og stofnana þess. Til þess þarf markvisst að vinna að virku lýðræði og siðferði í viðskiptalífi og í stofnunum þjóðfélagsins.
Félagið lýsir þungum áhyggjum af óvandaðri almennri umræðu í þjóðfélaginu. Nafnlaus umræða á vefsíðum eykur á niðurrifsstarfssemi í þjóðfélaginu. Stofnanir og embættismenn okkar verða að vinna sér inn virðingu en eiga að njóta sannmælis og almenns velsæmis í umræðu.
Það verður þungt verk að byggja upp réttlátt þjóðfélag með virku lýðræði þegar opinberar stofnanir, embættismenn og stjórnmálalíf er rúið trausti og virðingu.

Til að enduruppbygging atvinnulífs takist verða allir þegnar þjóðfélagsins að koma að málum. Verkalýðshreyfingin vill leggja sitt á vogarskálarnar með aukinni áherslu á símenntun og aðkomu að nýsköpun og þróun.  Kjaramálaráðstefnan telur sóknarfæri næstu missera einkum felast í heimabyggð, m.a. með því  að  efla úrvinnslu afurða, styrkja ferðaþjónustu og virkja sköpunarkraft íbúa.
Ráðstefnan hefur þungar áhyggjur af niðurskurði í opinberri þjónustu og því að of harðar aðgerðir geta valdið illbætanlegu tjóni á undirstöðum velferðarkerfisins og skaðað stoðkerfi atvinnulífsins. Fundurinn hvetur til að staðið verði við að útboð fari fram um Norðfjarðargöng svo og aðrar samgönguúrbætur sem fyrirheit hafa verið gefin um,  nú þegar í haust eins og samgönguráðherra lýsti yfir  í aðdraganda kosninga. Enn fremur að leitað verði samninga við lífeyrissjóði um lánsfé til að tryggja framgöngu verksins. Fundurinn hvetur stjórn Stapa til að standa vörð um hagsmuni starfssvæðisins og lýsir efasemdum um sameiginlegan fjárfestingarsjóð lífeyrissjóða. Fundurinn leggur áherslu á að ekki verði lánað úr sjóðnum til framkvæmda nema gegn ríkisábyrgð.

Fundurinn vill ennfremur vara við of miklum samdrætti opinberra framkvæmda á landsbyggðinni og vara við undirboðum verktaka sem víða hafa skilið eftir sig slóð gjaldþrota og skulda. Sporin hræða – og fundurinn minnir á það tjón sem kennitöluflakkandi verktakar hafa valdið á atvinnulífi á Austurlandi á síðustu árum. Fundurinn hvetur opinberar stofnanir til að semja aðeins við „heiðvirð“ fyrirtæki er virða kjarasamninga og standa skil á sköttum og skyldum.

Félagsmenn AFLs hafa áhyggjur af framkvæmd stöðugleikasáttmálans – og bæði því hversu endurreisn bankakerfisins hefur dregist og eins hversu seint gengur að finna lausn á vanda heimila í greiðsluerfiðleikum og ná sátt í þeim málum.

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi