Athugasemd um Landsvaka
Í fréttum RÚV í morgun vísar Björn Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Landsvaka, ásökunum AFLs um að sjóðurinn hafi blekkt forráðamenn AFLs varðandi þátttöku AFLs í peningamarkaðssjóði Landsvaka, á bug.
Það er rétt sem fram kemur hjá Birni, að fjárvörslusamningur AFLs var við Landsbanka Íslands en ekki Landsvaka. Landsvaki var þá og er enn alfarið í eigu Landsbankans og var með höfuðstöðvar og skrifstofu innan veggja bankans.
En rétt er að biðjast velvirðingar á því að starfsmaður AFLs ruglaði saman starfsmönnum Landsbanka og Landsvaka .
Annað sem fram kom í frétt RÚV var að dómur hefði nýverið fallið þar sem fram hefði komið að fjárfestingar sjóðsins hefðu verið innan marka fjárfestingastefnu hans – það sem ósagt var að þar var miðað við stöðu 6. október 2008 – en mánuði áður voru yfir 50% fjármuna sjóðsins í höndum skyldra aðila.
Þá var og ósagt að dómurinn kvað einnig upp með að sjóðsfélögum hefði verið mismunað Þannig að þeir sem innleystu sín bréf frá 10. sept. – 6. október hafi fengið of hátt verð fyrir sín bréf á kostnað þeirra sem sátu inni þegar sjóðnum var lokað. Landsvaki hefur áfrýjað þessari niðurstöðu dómsins.
Í frétt RÚV er haft eftir Birni að Landsvaki hafi fjárfest mikið í bankabréfum enda hafi þau verið talin örugg fjárfesting. Hversu örugg fjárfesting þessi bankabréf voru hefur síðar komið í ljós og það mun síðan verða staðfest við skýrslu rannsóknarnefndar alþingis að bankarnir og yfirstjórnendur þeirra vissu að hverju stefndi mánuðum fyrir hrun – en engu að síður héldu starfsmenn bankanna áfram að selja landsmönnum sparnað í þessum sjóðum.
Á síðu AFLs í gær var m.a. birt mynd af auglýsingu um hádegisverðarfund með forstöðumanni greiningadeildar bankans undir yfirskriftinni „Öfundsverðar langtímahorfur“. Þessi fundur var haldinn dagana sem bankinn riðaði til falls. Mögulega finnst mönnum að hér sé ekki um villandi upplýsingar að ræða – en við erum ekki sammála því.
Á fundi AFLs með fulltrúum Landsbankans í ágúst 2008 var t.d. fjallað um áhættudreifingu en þar var okkur ekki sagt að sami aðilinn væri með 52% peningana okkar heldur vísað í falleg kökurit með skiptingu í skuldabréfaflokka þar sem allt virtist með felldu. Okkur var heldur ekki sagt að bréf t.d. Eimskipafélagsins væru metin að fullu þrátt fyrir að ábyrgðir vegna XL Leisure Group en þær ábyrgðir höfðu veruleg áhrif á stöðu Eimskipafélagsins og Samson, fyrirtæki Björgólfsfeðga, en þessi tvö fyrirtæki ásamt Landsbankanum sjálfum og Straum Burðarás höfðu yfir helming allra peninga peningamarkaðssjóðsins að láni á þessum tímapunkti.
Það má því segja – ef litið er um öxl – að á þessum fundi AFLs með Landsbankanum í ágúst 2008 hafi fulltrúar Landsbankans átt að vita að verulegir erfiðleikar herjuðu á tvo af stærstu skuldurum sjóðsins. Samt sem áður fullvissuðu þau okkur um að framundan væru bjartir tímar með blóm í haga og vaxandi ávöxtun.
Varðandi öryggi skuldabréfa í bönkunum virðist liggja fyrir að verðmati þeirra var haldið uppi síðustu misserin fyrir hrun með meira eða minna tilbúnum viðskiptum og mun það sjálfsagt koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar eða í málum sérstaks saksóknara. Sú fullyrðing að bankabréfin hafi verið talin örugg fjárfesting stenst varla því á þessum tíma voru erlendar lánalínur til íslenskra banka meira eða minna lokaðar og höfðu verið það um nokkurt skeið. Það var ekki vegna þess að erlendir bankar töldu íslenska banka „örugga fjárfestingu“.
Í kjölfar fréttaflutnings af ákvörðun stjórnar AFLs um að höfða mál á hendur þeim starfsmönnum Landsbankans sem önnuðust um fjárvörslusaming félagsins hefur félaginu borist fjölda ábendinga og upphringinga frá fólki sem hefur lýst starfsaðferðum tengdum peningamarkaðssjóðum bankanna allra. Þær frásagnir eru í raun aðeins í takt við þá umræðu sem verið hefur af og til í fjölmiðlum síðustu misseri – en styrkja aðeins þá skoðun okkar að full ástæða sé til þess að fá úr því skorið fyrir dómstólum, hvaða ábyrgð menn bera sem önnuðust umsjón sjóðanna og upplýsingagjöf til viðskiptavina.
Það skal tekið fram að umræddur Björn Þór Guðmundsson, var ekki í forsvari fyrir Landsvaka í aðdraganda hrunsins og hafa fulltrúar AFLs ekkert upp á þann mann að klaga. Hann er hins vegar í þeirri stöðu nú að verja fyrirtæki, orðstý þess og stöðu, í kjölfar hrunsins.
Það liggur fyrir að eigendur hlutdeildarskírteina hjá Landsvaka fengu um 68% af innistæðum sínum. Í fréttum hefur komið fram að það greiðsluhlutfall náðist m.a. með því að nýju bankarnir voru látnir kaupa eignir peningamarkaðssjóðanna – að því er virðist á allt of háu verði. Án þess inngrips er næsta víst að lítið hefði verið til skiptanna fyrir viðskiptavini Landsvaka og tjónið nær algjört.
Það hlýtur að vera nauðsynlegt að fara yfir það hvernig sjóður sem bókfærir eignir að verðmæti 170 milljarða 1. september 2008 er nánast eignalaus fimm vikum síðar – en á sama tíma hafa um um 70 milljarðar verið greiddir út í reiðufé til „einhvers hóps viðskiptavina“ . Aðrir sátu eftir með verðlausa pappíra og skattgreiðendur eru skyldir eftir með stærsta hlutann af reikningnum fyrir þessum 68% sem þó voru greiddar út.