Krefjumst þess að staðið verði við hækkun persónuafsláttar
Stjórn AFLs óttast að gengið verður á umsamda verðtryggingu persónuafsláttar verði gefið fordæmi sem erfitt geti orðið að berjast gegn í framtíðinni auk þess sem ljóst er að veruleg andstaða er innan stjórnarandstöðunnar gegn þrepaskatti og því ma búast við að lækkun skattprósentu fyrir lægri tekjuflokka haldi lítt komi til þess að ný ríkisstjórn taki við, nær eða fjær í tíma.
Ályktunin fer hér að neðan.
Stjórn AFLS Starfsgreinafélags krefst þess að umsamin hækkun persónuafsláttar komi til framkvæmda um áramót. Einnig krefst stjórnin þess að áður umsamin verðtrygging á persónuáfslátt haldi. Hlífa verður þeim sem lægstar hafa ráðstöfunartekjurnar við frekari álögum eins og kostur er.
Stjórn AFLs lýsir áhyggjum af fyrirhuguðum skattaálögum sem leggja þarf á almenning til að greiða kostnað vegna þrotabús frjálshyggjunnar hér á landi og varar við því að ekki verði gengið svo nærri einstaklingum og fyrirtækjum að það valdi enn frekari usla á þjóðlífinu.
Félagið bendir á sameiginlega ályktun norrænna verkalýðsfélagi í iðnaði þar sem ítrekað er að yfirstandandi kreppa er fyrst og fremst kreppa eftirspurnar en ekki afleiðing kostnaðarhækkana. Til að losna úr núverandi ástandi þarf því fyrst og helst að örva markaði.
Félagið bendir á fyrri ályktanir AFLs þar sem m.a. segir „engin þjóðarsátt án skilyrða“ og ítrekar það sjónarmið AFLs Starfsgreinafélags að það verður engin sátt ef aðgerðir eiga einungis að fela í sér fórnir launafólks. Það er öllum íbúum landsins ljóst að í gróðæri síðustu ára hefur hvers kyns spilling þrifist í fjármálakerfi landsins og að stjórnmálamenn síðustu ára höfðu litla burði til að sinna hlutverki sínu. Vanhæfni og siðleysi ráðandi stétta síðustu ára hefur nú valdið stórkostlegri lífskjaraskerðingu sem bitnar harðast á þeim sem lægst hafa laun, hafa börn á framfæri eða eru að byggja upp heimili sín.
AFL Starfsgreinafélag krefst þess að samfara efnahagslegri endurreisn landsins verði skipuleg siðvæðing í fjármálum og stjórnsýslu – aðeins þannig verður sátt meðal almennings um að deila kostnaði við endurreisnina með aukinni skattbyrði.