AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Góður fundur trúnaðarmanna og starfsfólks

img_7888Slæm færð í gær hamlaði för trúnaðarmanna frá Vopnafirði og Seyðisfirði á upplýsingafund er AFL Starfsgreinafélag stóð fyrir um "Velferðarvaktina" og það sem starf sem unnið er til að fylgjast með og reyna að fyrirbyggja, skaðlegum áhrifum efnhagsástandsins á þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Sigurrós Kristinsdóttir, varaformaður Eflingar Stéttarfélags, er fulltrúi ASÍ í stýrihóp Velferðarvaktarinnar og kom hún til Reyðarfjarðar og fræddi trúnaðarmenn og starfsfólk AFLs um vinnu vaktarinnar.

 

Um það bil 25 trúnaðarmenn og starfsmenn félagsins mættu til fundarins og þeir sem lengst komu óku frá Höfn Hornafirði, um 230 km leið.

Á fundinum var rætt sérstaklega um stöðu barna og barnaverndarmála. Sigurrós upplýsti að náið samráð væri haft við barnaverndaryfirvöld um land allt svo og skóla og sveitarfélög. Markmiðið hefði m.a. verið að tryggja að öll börn fengju heitan mat í hádeginu án tillits til efnahags foreldra en það hefur verið m.a. krafa AFLs Starfsgreinafélags og komið fram í fjölda ályktana félagsins. img_7896

Þá var rætt um stöðu atvinnulauss ungs fólks og atvinnuleitenda almennt. Fram kom á fundinum megn óánægja með afskiptaleysi sem atvinnulausir búa við en liðið geta vikur eða mánuðir frá því að einstaklingur skráir sem til atvinnuleitar þar til viðkomandi fær viðtal við ráðgjafa.

Á fundinum var ítrekuð krafa verkalýðshreyfingarinnar um að þjónusta og skráning atvinnuleitenda færist á ný til verkalýðsfélaganna svo sem var í áratugi.

Þá urðu fjörugar umræður um fjárhagsstöðu heimilanna í landinu - skv. Sigurrós eru um 80% heimila í skilum með sín lán en um 20% í misalvarlegum vanskilum. Rætt var um greiðsluaðlögun og bílalán og fleira sem brennur á fólki þessa dagana.

Velferðarvaktin hefur það að meginhlutverki að fylgjast með og samræma upplýsingar um atriði sem tengjast velferð heimilanna í landinu og gera tillögur til úrbóta eftir því sem við á.

  Velferðarvaktin var sett á laggirnar í febrúar sl. til að "með markvissum hætti gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna. Fyrir velferðavaktinni fer stýrihópur sem skal samhæfa upplýsingaöflun og tillögugerð. Lögð er áhersla á að stýrihópurinn leiti í starfi sínu eftir samráði við aðrar stofnanir og frjáls félagasamtök sem láta sig málefni fjölskyldna og einstaklinga varða, þar á meðal að stýrihópurinn standi fyrir reglulegum samráðsfundum með þessum aðilum.Á vef velferðarvaktarinnar má finna ábendingar um hvert hægt sé að leita sér hjálpar, senda inn fyrirspurnir, fá fréttir og leita sér upplýsinga um hvað sé á döfinni í þeim málefnum sem undir nefndina heyra. Þar má einnig finna áfangskýrslur og fundargerðir nefndarinnar með ályktunum hvar hjálpar sé þörf, minnisblöð og annað áhugavert efni." (Af island.is).

Velferðarvaktina skipa þau:

  • Lára Björnsdóttir, skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra, formaður,
  • Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af Alþýðusambandi Íslands,
  • Páll Ólafsson, tiln. af Bandalagi háskólamanna,
  • Garðar Hilmarsson, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja,
  • Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu,
  • Ása Ólafsdóttir, tiln. af dómsmálaráðuneyti,
  • Björn Ragnar Björnsson, tiln. af fjármálaráðuneyti,
  • Guðrún Sigurjónsdóttir, tiln. af heilbrigðisráðuneyti,
  • Eiríkur Jónsson, tiln. af Kennarasambandi Íslands,
  • Stefán Stefánsson, tiln. af menntamálaráðuneyti,
  • Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands,
  • Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg,
  • Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
  • Guðrún Björk Bjarnadóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins,
  • Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti,
  • Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.

Með nefndinni starfa Ingibjörg Broddadóttir og Þorbjörn Guðmundsson.

 

Mikið af upplýsingum liggur inni á vef Velferðarvaktarinnar  - sjá hér
Ennfremur eru miklar upplýsingar um málefni heimila og úrræði á vefnum Ísland.is

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi