Kjarasamningar við ALCOA undirbúnir
Trúnaðarmenn AFLs Starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands hjá ALCOA héldu fund með fulltrúum félaganna í morgun og hófu undirbúning gerð kjarasamnings við ALCOA Fjarðaál - en gildandi samningur rennur út í nóvember nk. Trúnaðarmenn fjölluðu aðallega um fyrirkomulag viðræðna, viðræðuáætlun og tímasetningu kröfugerðar og skipan í samninganefnd.
Samkvæmt tillögum trúnaðarmannanna verða alls 34 fulltrúar í samninganefnd félaganna.
Fundur trúnaðarmannanna fór þess formlega á leit við samninganefndir AFLs og RSÍ að samninganefnd, kjörin úr hópi starfsmanna, yrði falið að fara með gerð kjarasamningsins í umboði félaganna. Samninganefnd starfsmanna AlCOA var síðast kjörin 2. apríl 2008 og verður m.a. kosið um áframhaldandi umboð þeirra nefndar og fulltrúa skv. tillögum um fjölgun nefndarmanna.
Einnig óskuðu trúnaðarmenn AFLs eftir því að kjörstjórn félagsins færi með framkvæmd kosningar fulltrúa í samninganefndina og á sama tíma verður kosið um nýja trúnaðarmenn eða endurnýjað umboð sitjandi trúnaðarmanna. Einn núverandi trúnaðarmanna, Ingibjörg Hjaltadóttir, hefur lýst yfir að hún gefi ekki kost á sér til endurkjörs.
Skv. tillögum fundar trúnaðarmannanna í morgun er reiknað með að samninganefndin verði kosin þannig að fulltrúar dreifist á vinnustaði og vaktir þannig:
-
2 fulltrúar af hverri vakt. (þ.m.t. dagvakt) - alls 10 fulltrúar
-
2 fulltrúar frá Kerskála, Steypuskála og Skautsmiðju - alls 6 fulltúar
-
4 fulltrúar iðnaðarmanna í AFLi. --- alls 4 fulltrúar
-
Trúnaðarmenn og varatrúnaðarmenn sitji í samninganefnd. ---- alls 8 fulltrúar
-
Formaður verði formaður AFLs. - alls 1 fulltrúi
-
Rafiðnaðarmenn (RSÍ) kjósi sérstaklega 4 fulltrúa. --- alls 4 fulltrúar
-
RSÍ á sérstakan fulltrúa í samninganefndinni f.h. félagsins. ---- alls 1 fulltrúa
Áformað er að kosið verði póstkosningu þannig að allri félagsmenn AFLs hjá ALCOA fái senda atkvæðaseðla heim og geti skilað atkvæði sínu annað hvort með almennum pósti eða í kjörkassa félagsins sem leitast verður við að hafa við vinnustað.
Kjörstjórn AFLs á eftir að koma saman og ganga endanlega frá tilhögun kjörsins en reiknað er með að kynnt verði næstu daga hvernig staðið verður að þessum kosningum og verður dreifibréf um það sent á vinnustöðvar og kynnt á annan hátt. Einnig verður kynnt hvernig standa á að tilnefningum en 5 meðmælendur þarf með hverri tilnefningu til fulltrúa.