Fisktækninám: Veiðar, vinnsla og eldi
25. mars nk. verður opnaður formlega Fisktækniskóli Suðurnesja, í Grindavík. Nám í skólanum skiptist í þrjár deildir, hásetanám, nám í fiskvinnslu og og fiskeldi.
Starfsgreinasamband Íslands ályktaði á fundi sínum á þriðjudag um þörf á að gera nám í undistöðuatvinnuvegi þjóðarinnar að forgangsverkefni á næstu árum. Sjá ályktun SGS hér að neðan.
Framkvæmdastjórn SGS lýsir yfir fullum stuðning við hugmyndir um uppbyggingu á samræmdu grunnnámi á sviði veiða (hásetanámi), vinnslu og fiskeldi á framhaldsskólastigi og kynnt hefur verið undir einu heiti -Fisktækninám. Námið, sem er skilgreint sem 1-2 ár, byggir á grunnnámi á nokkrum lykil útgerðastöðum á landinu þar sem hagsmunaaðilar á hverjum stað bera ábyrgð og sjá um framkvæmd námsins í samstarfi við fræðsluaðila á hverjum stað. Þessi útfærsla hefur verið kynnt fræðslu- og hagsmunaaðilum víða um land og verið hvarvetna vel tekið. Fyrsti vísir að slíku námi hefur nú þegar hafið starfsemi undir nafni Fisktækniskóla Suðurnesja í Grindavík, sem verður settur með formlegum hætti 25. mars n.k.. Með öflugum stuðning og þjónustu við þá aðila heima í héraði, sem koma til með að bjóða fram námið má skapa forsendur fyrir þróttmiklu starfi víða um land og reisa við menntun á starfssviði sem vanrækt hefur verið til fjöld ára í hinu formlega skólakerfinu og varðar grunnatvinnuveg þjóðarinnar.Framkvæmdastjórnin hvetur hagsmunaaðila og stjórnvöld til að styðja við þessi áform um fisktækninámið og jafnframt gera menntun á þessu sviði – frá grunnmenntun til háskólanáms - að sérstöku forgangsverkefni til næstu ára.