Stjórnvöld grípi inn í
Stjórn AFLs Starfsgreinafélags hvetur stjórnvöld til að grípa inn í uppgjör svokallaðra myntkörfulána. Sú óvissa er heimili og fyrirtæki búa við er óþolandi á meðan hvert dómsmálið á fætur öðru er höfðað vegna gengistrygginga lána.
Stjórn AFLs telur með öllu óásættanlegt að skuldarar þessara lána séu allir settir undir einn hatt. Ljóst er að á meðan almennt launafólk þáði ráðleggingar og tilboð bankastofnana eru háar upphæðir gengistryggðra lána vegna fyrirtækja og hvers kyns brasks sem stundað var í „góðærinu“.Það er og ljóst að það sem „fellt“ verður niður af þessum skuldum mun að mestu leyti lenda á almennu launafólki á Íslandi þar sem fjármálamarkaðurinn er nánast allur í gjörgæslu hins opinbera ýmist beint eða með aðkomu stjórnvalda að skilanefndum.
Þá liggur og fyrir að verði innlendir sem erlendir lánadrottnar fyrir þungum skaða vegna þessa klúðurs sem látið var viðgangast hér á tímabili frjálshyggju og gróða, munu þessir aðilar sækja það tjón til ríkisins með málaferlum – enda var þessi lánastarfssemi stunduð í skjóli FME, Seðlabanka og Viðskiptaráðuneytis. Nú þegar við blasir einn skelfilegasti niðurskurður á almannaþjónustu í manna minnum og barist er við hrikalegan fjárlagahalla er ljóst að ef tugir eða hundruðir milljarða lenda á ríkissjóði vegna uppgjörs þessara lána – er grunnþjónusta velferðarkerfisins í bráðahættu. Efnahagslegum stöðugleika verður ekki náð við þessar aðstæður.Stjórn AFLs hvetur stjórnvöld til að grípa inn í málið – enda er það allt of mikilvægt fyrir framtíð þjóðarinnar til að láta það eftir dómurum landsins sem bundnir eru af smáaletursklausum lagatexta – og ljúka því þannig að heimili fólks verði ekki sett á uppboð vegna lána sem það tók að áeggjan sölumanna bankakerfisins en á sama tíma verði enginn afsláttur gefinn af lánum sem tekin voru til brasks og óhófsfjárfestinga.