Hitaveita á Einarstaði ?
Stjórn AFLs ákvað á fundi sínum í gærkvöldi að hefja endurbyggingu orlofshúsa félagsins á Einarsstöðum. Stefnt er að því að fimm húsa félagsins verði tekin í gegn í vetur, innra skipulagi breytt og skipt um innréttingar, tæki og gólfefni.
Á sama fundi var formanni AFLs, Hjördísi Þóru, falið að fara með umboð félagsins á eigendafundi orlofsbyggðarinnar sem boðaður hefur verið en þar verður tekin ákvörðun um það hvort byggðin verði hitaveituvædd.
Undirbúningur beggja þessara verkefna hefur staðið lengi og m.a. voru könnunarviðræður við Hitaveitu Fljótsdalshéraðs fyrir tveimur árum - um kaup á heitu vatni sem veitt yrði frá Egilsstöðum. Við nánari skoðun reyndist þessi möguleiki ekki fýsilegur og hefur verkfræðiskrifstofan Mannvit unnið skýrslu fyrir eigendafélagið þar sem svo virðist sem kurlbrennsluofn - svipaður þeim sem notaður er á Hallormsstað, sé hagkvæmasti kosturinn fyrir verkalýðsfélögin sem eiga hús á Einarsstöðum.
Eigendafundur orlofsbyggðarinnar hefur verið boðaður 16. september en þar fara fulltrúar AFLs með um 2/3 hluta atkvæða enda á félagið 19 hús af 31.
Undirbúningur að endurbyggingu húsanna hefur staðið nokkurn tíma og verður á næstu dögum haft samband við verktaka á félagssvæði AFLs og þeim kynnt verkefnið.