Góð samstaða á formannafundi ASÍ
Á formannafundi Alþýðusambandsins í gær ræddu formenn aðildarfélaga undirbúning kjarasamninga - sem að mati margra geta orðið þeir erfiðustu og flóknustu um langt árabil. Fram kom að í ákveðnum atvinnugreinum - og/eða landssvæðum telja menn lítil færi til sóknar í kjaramálum á meðan aðrar atvinnugreinar eru taldar ráða við jafnvel talsverðar launahækkanir.
Það er því ljóst að það verður flókið verkefni að stilla saman strengi innan verkalýðshreyfingarinnar en allir þeir er til máls tóku voru sammála því að einna brýnasta verkefni hreyfingarinnar í komandi samningum væri að sýna fulla og órofa samstöðu - hvaða leið sem annars yrði valin í samningagerðinni.
Af hálfu AFLs sóttu fundinn, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, Jóna Járnbrá Jónsdóttir, formaður Verkamannadeildar, Gunnhildur Imsland, formaður Verslunarmannadeildar og Sverrir Albertsson, fulltrúi í miðstjórn ASÍ.