Hitaveita á Einarsstaði!
Í lok nóvember á þessu ári er áætlað að öll orlofshús verkalýðshreyfingarinnar á Einarsstöðum, hafi verið tengd við hitaveitu. Skrifað var undir samninga þessa efnis sl. miðvikudag. Framkvæmdir munu hefjast í maí og eru verklok áætluð í nóvember.
Hitaveita Egilsstaða og Fella og stjórn Orlofsbyggðarinnar á Einarsstöðum skrifuðu undir samning að verðmæti 40 milljónir króna sem greiddar verða fyrir tengingu 32 orlofshúsa við hitaveituna og var jafnframt samið um vatsnkaup næstu ár.
Áætlað er að framkvæmdir verði á orlofssvæðinu sjálfu í maí og fram í miðjan júní og síðan frá miðjum ágúst til verkloka.
AFL Starfsgreinafélag hefur í röskt ár undirbúið breytingar og endurbyggingu orlofshúsa sinna á svæðinu í samræmi við þessa framkvæmd og má búast við að félagið muni bjóða út breytingar á 19 sólpöllum og niðursetningu heitra potta í vor. Ennfremur er í undirbúningi að endurbyggja nokkur af húsum félagsins á næsta vetri en jafnframt er verið að skoða aðra möguleika - þ.m.t. að setja ný hús á sökklana sem fyrir eru.