Samningamenn boðaðir suður
Búast má við því að SA setji það sem skilyrði að gengið verði frá sérkjarasamningum félaga áður en skrifað verður undir aðalkjarasamning. AFL Starfsgreinafélag hefur látið bóka það á fyrri fundum hjá sáttasemjara að félagið muni ekki láta "stilla sér upp við vegg" rétt fyrir undirritun aðalkjarasamnings og ganga til sérkjarasamningsviðræðna undir hótunum um að ekki verði skrifað undir aðalkjarasamning við félagið, þannig að búast má við að tekist verði á um málið á morgun´.
Í deilu AFLs og Drífanda við SA vegna fiskimjölsverksmiðja hafa verið haldnir 3 samningafundir frá því að verkfallsboðun félagana var afturkölluð. Fundirnir voru allir árangurslausir. Um þrjár vikur eru síðan síðast var fundað vegna deilunnar og hefur hvorugur aðila óskað eftir fundi síðan - því kom krafa SA í dag um að bræðslusamningur verði frágenginn á morgun nokkuð á óvart enda nýfallinn dómur í Félagsdómi um sjálfstæði þessa samnings.
Viðræður AFLs við SA/Eimskip vegna kröfu félagsins um sérkjarasamning við Mjóeyrarhöfn hafa staðið í nokkrar vikur og hefur nokkuð miðað en enn eru nokkur atriði ófrágengin og hefur hvorugur aðila viljað gefa eftir.