Sjómannafélag Íslands stundar félagsleg undirboð
AFL hefur verið í sambandi við Sævar Gunnarsson, formann Sjómannasambands íslands út af þessu máli og hann og starfsmenn ASÍ hafa verið í sambandi við Færeyska sjómannafélagið og skv. heimildum okkar er verið að undirbúa aðgerðir gagnvart þessum bolabrögðum útgerðarinnar. það grátlega við málið er að þessi félagslegu undirboð og fantaskapur er með aðkomu og aðstoð íslensks sjómannafélags, Sjómannafélags Íslands (áður Reykjavíkur).
AFL Starfsgreinafélag hefur sagt upp viðskiptasamningi við fyrirtækið og niðurgreiðir ekki lengur orlofsferðir félagsmanna með félaginu og það er full ástæða til að hvetja íslenskt launafólk til að hugsa sig vandlega um áður en það ákveður að eiga viðskipti við þetta fyrirtæki.
Þetta mál er á dagskrá miðstjórnar ASÍ á miðvikudag. Hér á eftir fer tilkynning frá ASÍ vegna málsins.
"Sú furðulega staða er komin upp á ferjunni Norrænu, sem er skráð í Færeyjum, að íslenskt stéttarfélag er farið að gera kjarasamninga fyrir íslenska starfsmenn á ferjunni sem eru 30% lægri en laun færeysku starfsmannanna. Þessu hefur Fiskimannafélag Færeyja mótmælt harðlega enda ógnar þetta hátterni Sjómannafélags Íslands (áður Sjómannafélag Reykjavíkur) bæði starfsöryggi og kjörum færeyskra starfsmanna Norrænu. Ekki er vitað hvað Sjómannafélagi Íslands gengur til með því að gera kjarasamninga fyrir Íslendinga um borð í Norrænu á þessum lágu launum og sumir velta fyrir sér hvort félagið hafi yfir höfuð umboð til að semja um starfskjör á félagssvæði Fiskimannafélags Færeyja. Þetta mál hefur hefur þegar hleypt illu blóði í starfsandann á ferjunni og ógnar starfsöryggi áhafnar. Eru dæmi um hótanir og upplognar sakir á færeyska starfsmenn sem hafa mótmælt framferði Íslendinganna. Sjómannafélag Íslands á ekki aðild að ASÍ."