Stapi lífeyrissjóður endurheimti kröfuna
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag hefur Stapi Lífeyrissjóður endurheimt kröfu sína á Straum Burðarás (nú ALMC hf) að verðmæti um 5,2 milljarða króna, sem um tíma var talin glötuð með því að lögmaður lífeyrissjóðsins lýsti kröfunni of seint í þrotabú bankans.
Stapi lífeyrissjóður hélt því fram að með því að Straumur Burðarás fór ekki í gjaldþrot heldur gerði nauðasamninga við kröfuhafa, hafi krafan ekki glatast heldur verði að lúta sömu afföllum og samið var um í nauðasamningum. Héraðsdómur var sammála þessum málflutningi Stapa og dæmdi því kröfuna gilda.
Stapi lífeyrissjóður og lögmaður hans sætti mikilli gagnrýni er málið komst í hámæli og var krafan afskrifuð við mat á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins. Þessi dómur er því nokkuð gleðiefni þrátt fyrir að ljóst sé að krafan muni sæta sömu lækkun og aðrar kröfur við gerð nauðasamningana. (byggt á frétt á mbl.is)