Göngum ekki í störf annarra í verkfalli
AFL Starfsgreinafélag hvetur félagsmenn sína er starfa á leikskólum til að virða verkfall Félags Leikskólakennara í hvívetna. Þannig beinir félagið tilmælum til félagsmanna að ganga ekki í störf leikskólakennara og kynna sér leiðbeiningar sem birtar eru hér að aftan.
AFL lýsir fyllsta stuðningi við leikskólakennara í kjarabaráttu sinni.
1. Ekki er heimilt að taka börn inn á deildir þar sem deildarstjórinn er í verkfalli. Þær deildir eiga að vera lokaðar.
2. Deild sem er opin þar sem deildarstjóri er ekki í verkfalli má ekki taka við börnum af öðrum deildum sem lokað er vegna verkfalls.
3. Ef deild sem er opin verður fyrir fækkun starfsmanna vegna verkfalls, þ.e. leikskólakennarar á deildinni eru í verkfalli - fækkar þeim börnum sem deildin má annast í hlutfalli við fækkun starfsmanna.
Ofangreint er til viðmiðunar fyrir félagsmenn AFLs en nánari viðmiðunarreglur eru væntanlegar frá Starfsgreinasambandi Íslands. AFL vekur athygli á því að það er þó Félags leikskólakennara að annast verkfallsvörslu og hvetjum við félagsmenn AFLs til að fara að tilmælum verkfallsvarða.
Komi til ágreinings við framkvæmd verkfalls eru félagsmenn AFLs hvattir til að kalla til starfsmenn félagsins.