AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Til að taka réttar ákvarðanir þarf réttar upplýsingar.

Þetta voru upphafsorð að inngangi að umræðu um velferðarkerfið og landsbyggðina á Ársfundi trúnaðarmanna AFLs Starfsgreinafélags 30. – 31. mars sl. Framsögumenn voru þeir Hjalti Jóhannesson, landfræðingur og forstöðumaður Rannsóknarþjónustu Háskólans á Akureyri, Halldór Grönvöld, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og Sigurður Freysson, varaformaður AFLs.

Hjalti fjallaði um velferðarkerfið á landsbyggðinni, áhrif byggðaþróunar og fólksfækkunar og samgöngur og aðra þætti sem áhrif hafa á lífsgæðin.  Halldór Grönvöld fjallaði um tengsl velferðarkerfisins og verkalýðshreyfingarinnar. Og Sigurður Hólm, sem situr í stjórn Stapa Lífeyrissjóðs, fjallaði um skýrslu endurskoðunarnefndar um lífeyrissjóðina og stöðu Stapa.

Eftir framsögur var unnið í hópum og fjallað um ýmis viðfangsefni sem tengjast velferðarmálum og aðkomu verkalýðshreyfingarinnar. Þá var lögð fram athyglisverð skýrsla, Félagsvísar, sem unnin var fyrir Velferðarvaktina og inniheldur margvíslegar upplýsingar í tölum um félagslega stöðu fólks. (http://www.velferdarraduneyti.is/media/rit-og-skyrslur2012/Felagsvisar_20022012.pdf
Í ljósi háværrar umræðu um endurskoðun lána og „leiðréttingar á lánum“ var rætt um:
1. Á hverjum hrunið hefði helst bitnað varðandi þyngri greiðslubyrði húsnæðislána.
2. Hverjir hefðu mesta hagsmuni af flötum almennum niðurskurði lána.
3. Og ekki síst – hverjir myndu borga fyrir slíkar aðgerðir.
Í upphafi var meðfylgjandi mynd lögð fyrir fundinn.

arsf2012grafthumb_salb 

Á myndinni sést m.a. að yfirlýsingar um að verðtryggð lán hafi étið upp eigið fé fólks er beinlínis röng nema hvað varðar hópa sem keyptu húsnæði á hámarki fasteignabólunnar. Þá sést einnig að allt frá 1990 – en línuritið nær ekki aftar, hafa aðstæður verið húsnæðiskaupanda hagstæðar, sérstaklega eftir 1995 – en síðan þá hefur launavísitala alltaf hækkað umfram verðbólgu – þ.e. verðtryggingu – og fasteignaverð hefur farið hækkandi talsvert umfram bæði launavísitölu og verðtryggingu – að undanskildu sjálfu bankahruninu.
Ástæða þessarar umræðu er m.a. kröfur ákveðinna hópa um að eignir lífeyrissjóðanna verði nýttar til að lækka húsnæðisskuldir fólks og félagsmenn AFLs hafa skiljanlega áhyggjur af lífeyriseign sinni og mögulegum skattahækkunum til að mæta slíkum skuldaniðurfellingum svo og áhrifum á velferðarkerfið
Í skýrslunni Félagsvísar kemur m.a. fram að greiðslubyrði fólks sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hefur ekki breyst til muna við bankahrunið nema hjá allra tekjuhæsta hópnum en þar hefur greiðslubyrði tvöfaldast – farið úr um 9% í tæp 20% ráðstöfunartekna. Samt sem áður er greiðslubyrði þessa hóps vegna húsnæðislána lægst allra tekjuhópa en tekjulægsta fólkið eyðir um 30 – 40% ráðstöfunartekna í greiðslur húsnæðislána.

arsf2012graf2
Eftir að fólk hafði kynnt félagsvísinn varð helsta niðurstaðan að þeir tekjuhæstu myndu hagnast langmest á almennri skuldalækkun en almennt launafólk myndi borga brúsann – ýmist með sköttum framtíðarinnar, skertri velferðarþjónustu eða með lækkun lífeyriseignar.

Efni úr umræðum vinnuhópa:

Túnaðarmenn AFLs töldu að verkalýðshreyfingin hefði mikilvægu hlutverki að gegna í velferðarkerfinu og væri að mörgu leyti betur treystandi en stjórnvöldum þar sem efndir velferðar væru oft ekki í samræmi við loforð. Sérstaklega var fjallað um sjúkrasjóði verkalýðsfélaganna og einnfremur fjallað um fyrirhugaða yfirtöku AFLs á málefnum atvinnulausra á Austurlandi.
Fundarmenn töldu að verkalýðshreyfingin hefði góða ímynd meðal almennings en að fjölmiðlar og ofurbloggarar hefðu farið fram gegn Alþýðusambandinu og forseta þess af miklu offorsi og oft óverðskuldað. Á það var og bent að forseti Alþýðusambandsins hefur m.a. það hlutverk að vera talsmaður hreyfingarinnar og stundum að flytja skilaboð sem kæmu sér illa fyrir tiltekna þjóðfélagshópa – sem þá svöruðu af grimmd.
Einn hópurinn vakti sérstaklega athygli á eignarhaldi fjölmiðla og ritstjórn; hvort það væru hagsmunir almennings og launafólks sem stýrðu umræðunni og efnistökunum eða hagsmunir þeirra sem umræðunni stjórna og benti á að sennilega væru margir „álitsgjafar“ fjölmiðla í þeirri stöðu að tekjur þeirra hefðu lækkað til muna við bankahrunið og það væri farið að hafa áhrif á lífsstíl þeirra.
Hópurinn fullyrti að viðhorf almenns launafólks til verkalýðshreyfingarinnar væri miklu jákvæðara en umræða fjölmiðla gefur til kynna – og kemur það heim og saman við viðhorfskannanir AFLs og fleiri félaga innan SGS.
Einn hópurinn fjallaði sérstaklega um velferðarkerfi og landsbyggðina og voru þrír málaflokkar þar helstir – samgöngur – almenningssamgöngur og heilbrigðisþjónusta. Það kom skýrt fram hjá hópnum að samgöngumál er helsta hindrun í þjónustu – og að þegar þjónusta er færð til eða sameinuð milli byggðalaga verða samgöngubætur að fylgja þannig að aðgengi að þjónustunni versni ekki umfram það sem nauðsynlegt er.
Efnahagsörðugleikarnir hafa haft jákvæð áhrif að því leyti að fólksflutningar eru minni af landsbyggðinni að mati fundarmanna. Þá kom fram að þrátt fyrir almennan niðurskurð eru ýmsir þættir velferðarkerfsins ekki síðri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu – og þá sérstaklega vegna fámennis og nálægðar og var sérstaklega fjallað um leikskólamál og læknavakt – þar sem læknir yfirhöfuð er til staðar.

Þá var rætt um hlutverk Alþýðusambandsins í baráttunni fyrir velferðarkerfinu og varð m.a. niðurstaða að launafólk er langt í frá einsleitur hópur og með mjög mismunandi hagsmuni. Trúnaðarmennirnir fjölluðu sérstaklega um að Alþýðusambandið með verkafólk í fararbroddi hefur tekið baráttuna fyrir mörgum merkilegum velferðarmálum en aðrir hópar svo fylgt á eftir og fengið afraksturinn án þess að leggja neitt til vinnunnar.
Það var og rætt  meðal trúnaðarmanna hvort Alþýðusambandið og aðildarfélög þess ættu að leggja áherslu á uppbyggingu á velferðarþjónustu fyrir félagsmenn aðildarfélaganna í stað þess að allt það sem félögin berjast fyrir verður svo að almannaþjónustu. Var og á það bent að það leiddi til þess að fjölmargir gerðu sér ekki grein fyrir frumkvæði og baráttu félaga ASÍ því stjórnvöld á hverjum tíma væru síðan farin að skreyta sig með fjöðrum verkalýðshreyfingarinnar.
Á Ársfundi trúnaðarmanna var ekki unnin ályktun heldur áhersla lögð á umræður í hópum þar sem frummælendur gengu milli hópa og svöruðu spurningum. Í lokin voru pallborðsumræður sem formaður AFLs Hjördís Þóra stýrði og voru þeir Halldór Grönvöld og Hjalti Jóhannesson fyrir svörum og hópurinn allur ræddi það sem kom frá umræðuhópum.
Ársfundurinn var vel heppnaður þó svo að oft hafi hann verið betur sóttur en um 36 trúnaðarmenn félagsins sóttu fundinn af um 100 trúnaðarmönnum. Hótelið á Hallormsstað tók vel á móti fundargestum og var aðbúnaður og aðstaða öll til fyrirmyndar.

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi