Fiskveiðifrumvörp: Getum ekki mælt með frumvarpi um fiskveiðistjórnun
Ályktun stjórnar AFLs Starfsgreinfélags vegna frumvarpa um fiskveiðistjórnun og veiðigjald.
Stjórn AFLs Starfsgreinafélags telur að með frumvarpi um stjórnun fiskveiða sé alvarlega vegið að hagsmunum heilla byggðalaga, starfsöryggi fiskvinnslufólks, sjómanna og útgerðarfyrirtækja sem eru burðarásar búsetu á landsbyggðinni og þar með kjörum þeirra fjölskyldna sem eiga afkomu sína undir fiskveiðum og vinnslu.
Með frumvarpinu er haldið áfram að flytja aflaheimildir frá útgerðum stærri skipa og báta , til úthlutunar í ýmsum „pottum“ en með því t.d. er verið að flytja tekjur og tekjumöguleika frá sjómönnum sem hafa sjómennsku sem aðalstarf til m.a. „frístundaveiði“ sem stunduð er á sumrin – oft af fólki sem vinnur önnur aðalstörf.
Frumvarpinu virðist því ætlað að beina fiskveiðum til útgerða minni báta þar sem engir kjarasamningar eru í gildi og dæmi um brot á réttindum sjómanna sem hafa sjómennsku á minni bátum sem aðalatvinnu, eru því miður mörg og ljót.
Skerðing á kvóta stærri fiskiskipa, sem eru grundvöllur fiskvinnslu víða um land, mun ógna mjög atvinnuöryggi fiskvinnslufólks því það er því það er engin trygging fyrir því að afla smábáta sé landað til vinnslu í heimahöfn og víða er nánast öllum afla smábáta ekið burt til vinnslu annars staðar á landinu.
Í þessu sambandi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að þrátt fyrir marga annmarka núverandi fyrirkomulags á fiskveiðistjórnun þá hefur mikil framleiðniaukning í sjávarútvegi verið grundvöllur hagvaxtar síðustu ár en með fyrirhuguðum breytingum virðist stefnt að því að fjölga skipum og bátum til að veiða aflann og auka þannig á tilkostnað. Aukinn tilkostnaður í sjávarútvegi mun bitna á afkomu allrar þjóðarinnar með veikara gengi. Þjóðin þarf því að fá að vita hvað þessar tilfærslur muni kosta í lífskjörum þjóðarinnar allrar.
Þar sem umræða síðustu ár hefur ekki síst snúist um ranglæti það sem því fylgdi að gefa úgerðarmönnum kvótann og leyfa síðan framsal á honum og leigu – er vert að geta þess að mörg þau fyrirtæki sem nú starfa í greininni hafa keypt stóran hluta af kvóta sínum en þeir sem nutu ávinnings af þessu ranglæti hafa selt sinn kvóta og lifa nú á rentunum. Einnig má benda á að margir þeir sem hvað mest sækja á strandveiði eða aðra potta, eru menn sem hafa fengið gjafakvóta og selt sig út úr greininni og sumir oftar en einu sinni.
Eigi andi frumvarpsins að ná fram að ganga hlýtur að verða óþarft að úthluta ókeypis aflaheimildum hvort heldur er til stórútgerða eða lítilla og má benda að strandveiðibátar svo og aðrir smábátar munu hafa jafnan aðgang að kvótaþingi eins og aðrar útgerðir. Því mælir AFL Starfsgreinafélag með því að allar aflaheimildir sem til ráðstöfunar verða skv. flokki II í frumvarpinu, fari á kvótaþing og þar megi setja ákveðin skilyrði – t.d. sbr. byggðasjónarmið eða val veiðarfæra og að um borð í skipum og bátum sem stundi sókn í íslenska auðlind séu í gildi íslenskir kjarasamningar.
Þá er og vert að benda á að skv. frumvarpinu eru engin ákvæði þess efnis að kjarasamningar skuli gerðir fyrir útgerð smábáta en búast má við að þeim eigi eftir að fjölga verulega. Verkalýðshreyfingin hefur um skeið freistað þess að ná samningum við útgerðir smábáta en það strandar alltaf á kafla um tryggingarmál. Því eru kjaramál sjómanna smábáta í miklum ólestri.
AFL Starfsgreinafélag getur því ekki mælt með því að þetta frumvarp verði að lögum óbreytt og bendir sérstaklega á að:
1. Of miklu af aflahlutdeildum er ráðstafað til svokallaðra potta.
2. Ef aflaheimildir í þorski fari yfir 202.000 tonn eigi að ráðstafa 40% af umframheimildum til „pottakerfisins“ en það þýðir að verið að beina sjávarútvegi í átt til óhagkvæmari útgerðar sem aftur mun bitna á lífskjörum þjóðarinnar.
3. Afl í potti 2 virðist eiga að vera að mestu leyti undanþeginn auðlindaskatti – en AFL Starfsgreinafélag telur að innheimta eigi auðlindaskatt af hverju veiddu tonni af fiski – eigi á annað borð að innheimta slíkan skatt. Þjóðin hlýtur að gera þá kröfu að stefnt sé að hámarksframlegð úr sjávarútvegi og því skýtur skökku við að ýta beinlínis undir veiðar sem skv. frumvarpinu virðast ekki geta staðið undir auðlindaskatti.
4. Gera verður skýra kröfu um að skip sem sækja á íslensk fiskimið geri kjarasamninga um kaup og kjör og tryggingar.
Varðandi frumvarp um greiðslu breytilegs veiðigjalds – auðlindagjalds
AFL Starfsgreinafélag gerir ekki athugasemdir við aðferðina við innheimtu á auðlindagjaldi og telur að með því að reikna framlegð útgerðar og vinnslu saman virðist komið í veg fyrir að fyrirtækin geti flutt auðlindarentuna til þeirra rekstrareininga sem ekki bera auðlindaskatt og komi sér þannig hjá að greiða skattinn. Slík tilfærsla á framlegð greinarinnar myndi þýða lægra skilaverð til sjómanna.
Það virðast einkum tvö atriði í frumvarpinu sem valda deilum – og það er árgreiðsla sem ætluð til að standa undir eðlilegum hagnaði og endurnýjun búnaðar og síðan hver auðlindarentan er. Skv. frumvarpinu er ætlað að árgreiðslan verði 8% fyrir útgerð en 10% fyrir fiskvinnslu – og leggur stjórn AFLs Starfsgreinafélags í sjálfu sér ekki mat á þá stærð en hvetur stjórnvöld til að stilla skattheimtu þannig að það hamli ekki endurnýjun og fjárfestingu íí greininni.