Launafólki ögrað til átaka
AFL Starfsgreinafélag lýsir þungum áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í kjaraviðræðum og þeirra aðgerða stjórnvalda sem eru að birtast við endurskoðun fjárlagafrumvarpsins. Að óbreyttu virðist stefna í aukna hörku og aðgerðir til að knýja fram aðkallandi kjarabætur.Launafólk á Íslandi þarf að verja hagsmuni sína gegn samhliða árásum atvinnurekenda og stjórnvalda; Samtök Atvinnulífsins hafa alfarið hafnað hóflegum launakröfum og eyða þess í stað háum fjárhæðum í áróðursherferð með sögufölsunum á meðan stjórnvöld standa að verulegri lækkun barna-og vaxtabóta samhliða því sem láglaunafólk situr hjá í skattalækkunum ríkisstjórnarinnar.
Niðurstöður viðhorfskannana AFLs sem og fleiri verkalýðsfélaga lýsa miklu langlundargeði almenns launafólks sem yfirleitt lýsti sig reiðubúið til sáttar á vinnumarkaði með hóflegum launahækkunum gegn því að unnið yrði að stöðugleika og hagvexti. Helstu viðsemjendur launafólks, þ.e. atvinnurekendur og ríkisvaldið hafa hins vegar slegið á útrétta sáttahönd og útspil stjórnvalda m.a. varðandi vaxtabætur og barnabætur svo og niðurskurð til endurhæfingarmála og vinnumarkaðsúrræða, er ekki hægt að skilja öðruvísi en sem ögrun.
Í sjónvarpsauglýsingum Samtaka Atvinnulífsins er sök á verðbólgu undanfarinna ára skellt á launafólk og launahækkunum kennt um. Á sama tíma er ljóst að taxtahækkanir sem samið er um í kjarasamningum eru aðeins hluti launahækkana og launaskrið og sjálftaka efri laga samfélagsins er stærstur hluti hækkunar launavísitölu. Þessi þróun sýnir að tilraunir verkalýðshreyfingar til ábyrgrar afstöðu til uppbyggingar samfélagsins við gerð kjarasamninga er til einskis á meðan sjálftökuhóparnir vaða uppi. Þar verða Samtök Atvinnulífsins að eiga við sig og sína félagsmenn og það er því óþarfi fyrir samtökin að eyða stórfé til að auglýsa eigin vanmátt og samstöðuskort.
Sjálftakan er meira að segja komin inn í opinbera áætlunargerð – þar sem reiknað er með ákveðnum taxtahækkunum og síðan launaskriði þar til viðbótar. Þetta svokallaða launaskrið mælist aldrei hjá félagsmönnum okkar sem vinna samkvæmt launatöxtum. Launaskrið nær seint inn í greidd laun láglaunafólks. Áratuga sátt um samráð í vinnumarkaðsmálum og það velferðarkerfi sem þó var til staðar eftir efnahagshremmingar síðustu ára – er í uppnámi. Niðurskurður framlaga til vinnumarkaðsmála, endurhæfingar og annarra úrræða samfara lækkun bóta er bein aðför að þeim hluta samfélagsins sem hefur farið verst út úr efnahagskreppunni og glímt við langvarandi atvinnuleysi og heilsubrest því samfara. Þessi hluti samfélagsins mun ekki njóta skattafsláttar af séreignasparnaði eða höfuðstólslækkunar lána vegna húseigna sem þegar eru farnar á uppboð.
Samfara þessum aðgerðum sem þegar eru komnar til meðferðar alþingis eru svo tillögur niðurskurðarhóps stjórnvalda um enn frekari takmarkanir á atvinnuleysisbótum og öðrum félagslegum úrræðum.Ef það er tilgangur atvinnurekenda og talsmanna stjórnvalda að efna til ófriðar með málflutningi sínum og ögra launafólki til átaka er ljóst að verkalýðsfélögin þurfa að taka yfirlýsta stefnu sína um samráð og sátt til endurskoðunar. Það er og ljóst að meðan launafólk er fast í skuldafjötrum verða langvarandi vinnudeilur ekki vinsælar en svo má deigt járn brýna að bíti. Það er því full ástæða til að hvetja stjórnvöld til að endurskoða fyrirhugaðar skerðingar bóta og hækka persónuafslátt skatta þannig að láglaunafólk njóti einhvers af þeim skattalækkunum sem boðaðar eru.