AFL starfsgreinafélag

Vinnumarkaður í uppnámi

Verkalýðshreyfingin klofin í herðar niður  - verkfallsátök í miðjum sveitarstjórnarkosningum

Úrslit kosninga um kjarasamninga í liðinni viku eru sennilega afdrifaríkasti atburður síðustu missera og tómlæti fjölmiðla um framhaldið og þá stöðu sem nú er á vinnumarkaði verður ekki skilið öðruvísi en að fjölmiðlafólk sé enn ekki farið að átta sig á því upplausnarástandi sem nú ríkir.

Með því að samningar voru samþykktir í einhverjum félaga stóru sambandanna eru þau sambönd og Alþýðusambandsins þar með komin með kjarasamning og geta ekki tekið við samningsumboðum til að gera „betri kjarasamning“ .  Með því að fara í forystu við gerð „meiri kjarasamninga“ væru þessi sömu sambönd þar með búin að glata trúverðugleika bæði gagnvart viðsemjendum en ekki síður gagnvart þeim félögum sem samþykktu samningana. Ekki  er víst að allir formenn sem töluðu fyrir því að fella samninga hafi átt von á því að þeir féllu og félögin væru síðan eins síns liðs í baráttunni.

Félögin sem felldu höfðu mismunandi aðkomu – forysta flestra félaganna mælti með samþykkt og var virk við gerð fellda samningsins. Úrslitin voru því talsvert áfall fyrir þær forystusveitir.  Formenn annarra félaga gengu hart fram gegn kjarasamingunum sem þó voru undirritaðir fyrir hönd þeirra félaga og í umboði þeirra. Þessi félög felldu flest með yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna og umboð þeirra formanna er skýrt og verkefnið er að sækja „miklu hærri kauphækkanir“ og væntanlega með aðgerðum ef þurfa þykir.

Þá hafa formenn þeirra félaga sem felldu misgóða aðkomu að samningaborðinu. Þeir formenn sem hafa gengið hart fram í málflutningi mæta vart öðru en fullkomnu tómlæti af hálfu viðsemjenda og hafa engin tök á að knýja mótaðilann til viðræðna önnur en að grípa til aðgerða. Það fer því eftir því hvernig félagsmenn á hverjum stað meta stöðu sína til verkfalla – hvaða stöðu formennirnir hafa í húsi sáttasemjara. Búast má við að í mótlætinu verði þung orð látin falla sem mála viðkomandi formenn og félög þeirra enn frekar út í horn.
Meti félagsmenn þessara félaga stöðu sína til verkfalla veika – verða þessi félög að setjast á hliðarlínu og horfa á af varamannabekknum þar til aðrir hafa rutt brautina og þiggja síðan brauðmolana sem af borðinu hrjóta.  Sú bið gæti staðið í fleiri mánuði.

Stærri félögin á borð við Eflingu og Einingu Iðju svo og Rafiðnaðarsambandið og VM mæta líklega mun meiri skilningi hjá viðsemjendum sem munu eflaust reyna að koma til móts við félögin en staðan er þröng – því innihaldi nýir samningar hærri launatölur eru forsendur þeirra kjarasamninga sem þegar eru samþykktir, brostnar.

Það er og vafamál að ofangreind félög sjái ástæðu til að bera annan áþekkan kjarasamning undir atkvæði. Félögin munu því eflaust einnig bíða átekta og fylgjast með viðræðum ríkis og sveitarfélaga við félög opinberra starfsmanna og háskólafólk – en samtök beggja hafa kynnt mun hærri kröfugerðir en samningar ASÍ félaganna kveða á um.

Við fyrstu sýn verður því vart annað séð en að samningar þeirra félaga ASÍ sem felldu og þeirra sem enn eiga ósamið muni dragast fram á vorið nema eitthvað óvænt komi  til. Komandi sveitarstjórnarkosningar þrengja stöðu stjórnvalda – því ólíklegt er að það hugnist stjórnarflokkunum að ganga til kosninga með hluta vinnumarkaðar í verkfallsham. Ríkisstjórnin gæti því hugsanlega gefið eftir í samningum við opinbera aðila og farið út fyrir ramma fjárlaga og ýtt af stað launaskriði og verðbólgu – en fengi mögulega þá frið rétt yfir kosningadagana.
Verðfall á fiskimjöli og dapurlegt útlit á loðnuvertíð bætir ekki úr skák. Samdráttur útflutningstekna mun auka þrýsting á gengi krónunnar og samfara verkföllum eða öðrum átökum á vinnumarkaði má búast við að Seðlabankanum muni reynast erfitt að verja stöðugleika krónunnar.

Af hverju féllu samningar?

Kjarasamningurinn sem var til afgreiðslu var svokallaður „aðfararsamningur“ – þ.e. skammtímasamningur þar sem í raun var aðeins tekið á launaliðum.  Markmið samningsins var að koma á stöðugleika og reyna að tryggja festu í gengismálum og litlar verðhækkanir.  Í framhaldinu átti svo að vinna að þríhliða samkomulagi  samtaka launafólks, atvinnurekenda og ríkisvalds og freista þess að koma í gang hinu svokallaða norræna módeli – þ.e. kjarasamningum þar sem þrátt fyrir að kauphækkanir væru lægri en við eigum að venjast – væri kaupmáttur sívaxandi.

Í ljósi þess að þessi vegferð er algerlega í samræmi við niðurstöðu viðhorfskönnunar AFLs Starfsgreinafélags sem yfir 800 félagsmenn tóku þátt í sl. haust og þess að önnur félög innan ASÍ fengu sömu niðurstöður úr könnunum hjá sér og úr samtölum við félagsmenn – kom eindregin andstaða við samninginn talsvert á óvart.
Í umfjöllun um kjarasamningana var í raun lítið deilt á einstök efnisatriði þeirra, en lág kauphækkun harðlega gagnrýnd og reyndar mistúlkuð að verulegu leyti, því að stærstur hluti almennings stóð í þeirri trú að samningurinn væri uppá 2,8% kauphækkun en varðandi þá sem þiggja laun skv. töxtum SGS var hækkunin allt uppundir 5% og það var ekki fyrr en við kauptaxta upp á kr. 285.000 þar sem þessi einfalda prósentuhækkun réð ferð.

Í ljósi lítillar umræðu um efnislegt innihald kjarasamninganna og þeirrar framtíðarsýnar sem þeir innihéldu freistast ég til þess að telja að þeir hafi í raun ekki verið felldir út af innihaldi heldur að félagsmenn hafi verið að hafna því að það sé hlutverk launafólks að axla ábyrgð og bera kostnað af því að koma á efnahagslegum stöðugleika.

Ég hallast að því, að fólk hafi hafnað því sem litið hefur út í fjölmiðlum sem náið samstarf ASÍ og SA – sem í raun er verulega of mikið gert úr – og að forystuhlutverk forseta Alþýðusambandsins í aðdraganda nýrrar „þjóðarsáttar“ hafi verið afþakkað.

Það var og ljóst á vinnustaðafundum sem ég hélt fyrir AFL Starfsgreinafélag að meðal félagsmanna okkar var það ekki aðeins innihald kjarasamningsins sem vakti gremju – heldur og brostnar vonir um skuldaniðurfellingar, svikin loforð um afnám verðtryggingar, ofurlaun og bónusar í fjármálageira og ýmislegt fleira sem í sjálfu sér er ekki verkalýðshreyfingarinnar um að semja beint um í kjarasamningum.  Almenn reiði og gremja fólks gagnvart stjórnvöldum og atvinnulífinu hafði því mögulega veruleg áhrif á niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.

Persónuníð í nýjum víddum

Hugmyndafræði Alþýðusambandsins er ekkert einkaframtak forseta ASÍ en hann er skv. hlutverki sínu talsmaður samningnefndar ASÍ  þar sem sitja formenn allra landssambanda auk formanna tveggja stærstu félaga sambandsins. Að auki byggir stefnumótun á ályktunum ASÍ þinga og mikilli innri vinnu aðildarfélaga. vinnum

Ólíkt því sem haldið er fram í fjölmiðlum taka þátt í þeirri vinnu hundruð óbreytts launafólks, trúnaðarmanna stéttarfélaga, þingfulltrúa og fleiri aðila. Meðal félagsmanna AFLs sem tekið hafa þátt í þessari stefnumótunarvinnu er fiskvinnslufólk, járniðnaðarmenn, starfsmenn ALCOA, skólaliðar og  bílstjórar svo fátt eitt sé nefnt.  En einhvern veginn hefur óvildarmönnum hreyfingarinnar og þar með launafólks tekist að persónugera öll mál Alþýðusambandsins í Gylfa Arnbjörnssyni forseta og eftir  linnulausan róg og persónuníð undangenginna ára þurfa öll mál hreyfingarinnar að sækja verulega á brattann.

Það er  vaxandi áhyggjuefni og tilefni sérstakrar umfjöllunar, hvernig málflutningur tiltekinna einstaklinga og álitsgjafa síðustu misseri hefur skaðað ímynd Alþýðusambands Íslands og að mínu viti skaðað stórlega hagsmuni almenns launafólks. Frá því að Alþýðusambandið var stofnað fyrir 98 árum hefur það knúið fram- ýmist með átökum eða samningum   nærfellt öll velferðarmál sem við teljum nú sjálfsögð. Alþýðusambandið hefur verið eini stöðugi málsvari almennings og fátæks fólks frá upphafi og þótt einstakir hrópendur taki sig af og til út úr hópnum og kalli á torgum og yfirbjóði alla aðra í einstaka málum – hefur það alltaf verið Alþýðusamband Íslands sem hefur staðið vaktina og skilað árangrinum í höfn.

Með þeim vinnubrögðum sem einhverjir formanna aðildarfélaga og einnfremur  sumir  „álitsgjafar“ hafa tileinkað sér með linnulausum árásum á forseta ASÍ og með því að nefna aldrei aðra forystumenn á nafn og skuldfæra einhvern veginn allt það sem aflaga hefur farið og aflaga getur farið á forsetann – er búið að gengisfella svo mjög hið góða nafn Alþýðusambandsins að hreyfingin stendur öll veikari. Veikara Alþýðusamband þýðir til lengri tíma að gengið verður á rétt fólks og þá sérstaklega þeirra sem mest hallar á nú þegar,  því að þar vantar þá viðspyrnuna.

Því fer fjarri að forsetar ASÍ hafi alltaf setið á friðarstóli og að innan hreyfingarinnar hafi alltaf ríkt einhver heiðríkja. Forsetar ASÍ hafa rétt eins og gengur og gerist verið umdeildir í störfum sínum og sumir þurft að glíma við erfiðar aðstæður í umhverfinu.  Gylfi Arnbjörnsson er búinn að vera forseti ASÍ allar götur frá efnahagshruni og hefur leitt Alþýðusambandið í gegnum eina kjarasamninga síðan en hefur á sama tíma mátt þola að vera skotspónn  þeirra sem eru reiðir og örvinglaðir af eignamissi, tekjutapi og öðrum afleiðingum hrunsins – hvort heldur hinir sömu hafa nokkurn tíma verið félagsmenn almennra verkalýðsfélaga eða ekki. Bloggarar sem sumir hverjir voru ótýndir braskarar og fjárglæframenn fyrir hrun og töpuðu sínu þar  hafa ítrekað farið með himinskautum í málflutningi sínum.

Ég hef haft afskipti af málefnum Alþýðusambandsins, með hléum þó, síðan 1985 – fyrst sem starfsmaður á plani þar, síðar úr fjarska sem trúnaðarmaður til sjós og loks síðustu ár sem starfsmaður stéttarfélags og undir það síðasta sem fulltrúi í miðstjórn sambandsins.  Ég hef á þessum tíma aldrei orðið vitni að jafn rætinni umræðu og hatursfullri og síðustu misseri. Ég veit ekki til að forystumenn einstakra stéttarfélaga hafi nokkurn tímann ráðist á jafn persónulegan hátt að forseta sambandsins og við höfum séð að  undanförnu.
Það er og verulegt áhyggjuefni að aðrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar skuli sitja hljóðir hjá þegar æra forsetans og nafn Alþýðusambandsins eru dregin í forina af leigupennum og þeim innan hreyfingar sem líður best baðandi sig í aðdáun þeirra sem líkar skeleggur málflutningur hvort heldur innistæða er fyrir honum eða ekki.

Sundrung innan ASÍ – samstaða meðal atvinnurekenda

Meðal þeirra verkalýðsfélaga innan ASÍ sem felldu kjarasamningana verður engin samstaða. Hluti formanna félaganna ganga særðir til verks – því samningar sem þeir gerðu og mæltu með – voru síðan felldir en með svo litlum mun að óvíst er að auðvelt verði að sækja verkfallsheimildir. Aðrir formenn ganga vígreifir til leiks með allt að rússneskan meirihluta félagsmanna að baki sér og kolfellda samninga. Verkfallsheimildir ættu að verða auðsóttar á þeim bæjum.

Á sama tíma eru opinberir starfsmenn og háskólamenn og aðrir smærri hópar að brynja sig til átaka og með mun hærri launakröfur en samningur Alþýðusambandsins miðaði við að myndi ráða launaþróun næstu mánaða.  Með því að stór hluti Alþýðusambandsins felldi þann samning og í ljósi kröfugerða annarra sambanda s.s. BSRB og BHM, er ljóst að það eru engir stöðugleikasamningar eða þjóðarsáttir á teikniborðinu.

En á meðan félög innan ASÍ standa ein – og milli þeirra og félaga opinberra starfsmanna og háskólamanna eru varla nokkur samtöl – standa atvinnurekendur sameinaðir undir járnaga.  Miðstýring innan SA er nánast fullkomin og ágreiningsmál þar eru leyst innan dyra og samtökin koma fram sameinuð og með einn vilja.  Innan verkalýðshreyfingarinnar eru margir smákóngar og sumir meira að segja með messíasarkomplex á háu stigi. Slíkir foringjar hafa alltaf rétt fyrir sér að eigin mati og efast aldrei um dómgreind sína.
Eflaust munu félög með fellda samninga reyna að skipa sér í einhverjar fylkingar en þær verða fleiri en tvær og samstarf á milli mismunandi fylkinga lítið.  Einhverjir munu eflaust sakna Alþýðusambandsins og hinna sambandanna og hlutverks þeirra við samhæfingu og verkstjórn.  Þegar tekur að líða á þvargið  hef ég þó trú á að sérfræðingar ASÍ verði orðnir meira og minna  virkjaðir í samningagerðina þó svo að formlega verði hlutverk sambandsins ekkert – enda hvílir veruleg ábyrgð á Alþýðusambandi Íslands hvað varðar velferð félagsmenn aðildarfélaga og sambandið mun ekki neita að axla þá ábyrgð þegar á reynir.

Verkföll
Það er vandséð hvernig unnt verður að koma í veg fyrir verkföll t.d. framhaldsskólakennara og sennilega einstakra hópa innan BSRB – nema stjórnvöld víki verulega af stefnu sinni og frá fjárlögum og setji mun meiri launahækkanir út í umhverfið en fjárlög gera ráð fyrir.  Sveitarfélög sem hafa síðustu mánuði verið dregin nær „verðfrystingarstefnunni“ á þjónustugjöldum – verða í þröngri stöðu.

Í okkar hópum tel ég ólíklegt að til verkfalla komi nema þá helst í Vestmannaeyjum  - en eyjafólk stendur oftast heilt á bak við ákvarðanir sínar.  Á Húsavík og Akranesi munu menn eflaust veifa verkfallsfánum eitthvað en vafamál er að félögin óski yfirleitt eftir verkfallsheimildum enda alls óvíst að félagsmenn myndu veita þær.  Ef Vestmannaeyingar grípa til verkfallsaðgerða má búast við að átök þar verði hörð og óvægin og að fólk og fyrirtæki verði lengi að jafna sig eftir átökin.

Aðkoma ríkisstjórnarinnar að aðdraganda kjarasamninga og eftirfylgni er sérkapituli.Ríkisstjórnin sýndi fullkomið skeytingarleysi í aðdraganda kjarasamninga og sinnti engu áköfu kalli almennings og ASÍ um að flytja skattaívilnanir yfir í persónuafsláttinn. Strax að undirrituðum kjarasamningum boðaði svo forsætisráðherra að bæta þyrfti kjör þeirra lægst launuðu – en virtist hafa gleymt því að 10 dögum áður hafði hann öll tök á því en neitaði þá algerlega að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Í kjölfarið dundu síðan tilkynningar um verðhækkanir og hækkanir á þjónustu opinberra aðila.

En það er ljóst að það verður harka á vinnumarkaði fram eftir ári og vandséð að það náist samningar næstu mánuði.  Félagsmenn AFLs utan verslunarmannadeildar munu sitja í farþegasætinu – njóta launahækkunar þó lág sé, og fylgjast með baráttunni úr fjarska.  Það er kannski ekki óskastaða fyrir vígreifa baráttumenn í verkalýðshreyfingu – en hún gæti verið verri.

Sverrir Albertsson
Framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags

Greinin í pdf eins og hún birtist í Austurlugguanum