AFL starfsgreinafélag

Og þar fundu þau frelsið

frelsid 1Það er hætt við því að fæstir núlifandi geri sér grein fyrir því að íslenskur almúgi var í raun ánauðugur þar til 1894 – þ.e. að bændur og yfirvöld héldu um það bil fjórðungi þjóðarinnar í ánauð – ævilöngum þrældómi án nokkurrar vonar um betri tíð og fátæklingar voru dæmdir til einlífis án möguleika á lífsförunaut og afkomendum. Þegar fátækasta fólkinu hafði verið slitið út við vinnu – var það sett á hreppinn og hraktist á milli bæja sem niðursetningar. Svo dó það úr vanhirðu – eitt og yfirgefið, hrætt og umkomulaust og enginn minntist þeirra síðar.

 
Almúgi um heim allan bjó við þessi skilyrði – eini munurinn var sá að Ísland var lengst af áratugum og árhundruðum á eftir öðrum þjóðum hvað varðaði þróun atvinnulífs og samfélags. Og með refsiglöðum sýslu- mönnum og prestastétt, sem dansaði vangadans við hið veraldlega vald, var alþýðufólki haldið heljartökum í fátækt og fáfræði, eymd og vesaldómi löngu eftir að alþýðufólk í nágrannalöndum hóf að brjóta hlekkina.
 
Var langamma þín í þessum sporum?
Leiðin til nútíma lífsgæða - hversu misskipt sem þau eru – hefur ekki verið bein og breið. Ekki teppalögð með mjúkum flosteppum. Við getum ímyndað okkur unga konu einhvers staðar í uppsveitum á Austurlandi fyrir 150 árum. Fátæk fæddist hún og fátæk mun hún deyja. Hún ræður sér ekki sjálf – húsbóndi hennar getur bannað henni að fara frá bænum og getur tuktað hana – jafnvel barið – ef honum sýnist svo. Hún gæti hæglega verið langamma einhvers af glæsilega íþróttafólkinu okkar í dag. En hún á ekkert og fær ekki laun utan nauðþurftir.
 
Hún verður að hafa sveitafestu – þannig að hún getur ekki farið hvert hún vill. Hún má ekki fara úr hreppnum nema með skriflegu leyfi prestsins eða hreppstjórans. Þeir eru á höttum eftir vinnuafli sem ekki má kosta – svo auðvitað leyfa þeir henni ekki að fara neitt. Hún á sig ekki sjálf. Hún er hjú – þeir eru húsbændur.
 
Kannski varð hún ástfangin af ungum manni – og kannski áttu þau barn saman. Og hafi húsbóndi hennar verið góður maður fékk hún að hafa barnið hjá sér. En barneignir öreiga voru ekki vel séðar svo líklegast
var barnið tekið og komið fyrir sem sveitarómaga einhvers staðar – hjá þeim sem best bauð. Þar beið barnsins svo vinnuþrælkun og vanhirða.
 
Unga manninn hitti hún þegar hann var tiltækur – þegar hann hafði ekki verið sendur á sjó; ánauðugur reri hann á áraskipum, fátækur og illa búinn og húsbóndinn hirti hlutinn hans. Sjálfur fékk hann sín vinnumannslaun en hásetahlutinn hirti húsbóndinn. Þannig urðu menn efnaðir.
 
 
Að deyja úr fátækt
 
Árið 1894 var vistarbandinu aflétt – þau réðu sér sjálf. Þau áttu ekkert en voru uppnumin af frelsinu. Þeim fannst lífið loks réttlátt – þau gátu komið og farið og gátu ráðið sig í vinnu þar sem þau vildu. Þau fluttu á mölina – til Neskaupstaðar, Vopnafjarðar eða til þessara útróðra-og verslunarstaða sem efldust til muna við aukið framboð á vinnuafli og aukna verslun. Þar fundu þau frelsið – að geta ráðið sér sjálf.
 
En það var skammvinn hamingja. Nokkrum árum síðar voru ungu hjónin - uppgefin og slitin – í kofahreysi með moldargólfi. Gamalmenni fyrir aldur fram. Konan búin á líkama og sál af því að vaska fisk úti í öllum veðrum og af því að jarða börnin sína hvert á fætur öðru. Börnin sem dóu af umgangspestum – en mest af lélegri næringu og slæmu húsnæði: Af fátækt. Hann hokinn og lúinn af þrældómi á opnum skipum undir ógnarsvipu atvinnuleysis og umkomuleysis.
 
Samstöðuleysið var algert.  Ef einn möglaði og var rekinn var alltaf annar tilbúinn til að taka plássið. Börnin voru jú svöng og það þurfti að afla matar. Þannig verða menn frjálsir þrælar.
 
 
 
Samstaða gegn óréttlæti
 
En það voru menn og konur sem ekki sættu sig við þetta ástand og vindar félagshyggju tóku að gæla við vinnulúna vanga. Menn fóru að tala sig saman – lágum rómi undir gafli. Erlendis var fólk víst að taka sig saman í félög – og stóðu uppi í hárinu á yfirvaldinu. Og stóðu saman. Hér reyndu yfirvöld að stoppa þessa ósvinnu; banna verkalýðsfélög og koma böndum á óeirðarseggi. Lögreglu var sigað á verkfallsmenn og það var barist á bryggjum víða um land.
 
Það reyndust alltaf einhverjir almúgamenn tilbúnir til að slást við meðbræður sína í von um mola af borði auðmanna. Brauðmolahagfræðin er ekkert ný.
 
Á Seyðisfirði stofnuðu menn verkalýðsfélag en það var brotið á bak aftur. Forvígismenn voru sveltir til hlýðni. Þeir fengu ekki vinnu. Félagið leystist upp. En það var geymt en ekki gleymt. Þeir komu aftur og stofnuðu sterkara félag. Loks 1916 voru komin félög víðast hvar um landið og það voru sjómannafélög og verkamannafélög og iðnaðarmannafélög og þá varð Alþýðusambandið til.
 
ASÍ hefur alltaf átt sér óvildarfólk
 
Síðustu hundrað árin hefur Alþýðusamband Íslands alltaf verið umdeilt – alltaf átt óvildarfólk og alltaf hefur verið reynt að auka á sundrungu innan þess. En á þessum sömu árum hefur Alþýðusambandið alltaf verið í fararbroddi í öllum málum er snerta velferð almennings. Barist fyrir launum, fyrir uppsagnarfresti, atvinnuleysisbótum, veikindarétti, veikindalaunum, orlofi, fæðingarorlofi, bættri menntun alþýðufólks og ekki síst fyrir mannsæmandi húsnæði fyrir launafólk.
 
Allt þetta hefur sætt ámæli og alltaf hafa auðstéttirnar með leigupenn- um sínum beitt sér harkalega gegn Alþýðusambandinu og forystufólki þess – það hefur sætt hvers kyns rógi og illmælgi enda er baráttan hörð, hagsmunirnir miklir. Það eru engin geimvísindi að skilja að eftir því sem hagur launafólks batnar og réttindi aukast – verða færri krónur eftir til að deila út í ofsagróða auðstéttanna.
 
Mögulega finnst núlifandi afkomenda hjónanna sem áður er minnst á Alþýðusambandið eða AFL Starfsgreinafélag vera glötuð fyrirbæri, gamaldags og nánast óþarfi. Kannski gerir hann/hún sér ekki grein fyrir að langafabróðirinn var útilokaður frá vinnu árum saman og lifði á sam- stöðu annarra örsnauðra – og bara af því hann stóð upp fyrir rétti sínum. Mögulega vita þau ekki að fjarskyld frænka fór í farabroddi kvenna í Hafnarfirði sem kröfðust yfirvinnukaups um helgar – en það fengu konur ekki í þá tíð.
 
Þau vita ekki að fjölskyldan missti allt sitt á fyrripart síðustu aldar þegar fjölskyldufaðirinn slasaðist við vinnu og var þá bara settur í land án launa og án trygginga. Fjölskyldan stóð bjargalaus eftir og hraktist úr lélegu húsnæði í enn lélegra. Þeim er mögulega ekki kunnugt um að afabróðir þeirra var dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir þátttöku í Borðeyrardeilunni svokölluðu þar sem verkamenn börðust við lögreglu og hvítliðasveit sem sett var lögreglu til aðstoðar.
 
grein2
Allt þetta gerði fólk í nafni verkalýðsbaráttu – í nafni Alþýðusambandsins. Og það gerði það til að brjóta hlekkina og til að standa jafnrétthátt og semja um eigin kjör og kaup en láta ekki kúska sig eins og leiguliða og ánauðuga þræla. Baráttan var ekki þrautalaus.
 
Í verkalýðsbaráttu stöndum við aldrei ein
 
Jafn beiskir og ósigrarnir hafa verið þessi hundrað ár eru sigrarnir sætir
– það voru hamingjustundir hjá örsnauðu fólk sem flutti úr kjallaraholum þar sem skolpið lék um gólfin á flóði, þar sem rottur skutust milli barna að leik og í nýjar og glæsilegar íbúðir verkamannabústaða. Og það voru stoltir verkamenn sem buðu fjölskyldum sínum í nýju sumarhús verkalýðsfélaganna á Einarsstöðum. Illugastöðum eða Ölfusborgum. Sumarfrí, orlof og sumarhús – þetta voru alveg ný hugtök fyrir almúgann.
 
Síðustu hundrað árin hefur Alþýðusamband Íslands alltaf verið umdeilt – alltaf átt óvildarfólk og alltaf hefur verið reynt að auka á sundrungu innan þess. En á þessum sömu árum hefur Alþýðusambandið alltaf verið í fararbroddi í öllum málum er snerta velferð almennings.
 
Því miður er það svo að það sér ekki fyrir endann á verkefnunum. Enn er hart sótt að alþýðufólki, húsnæðismál þarfnast tafarlausra úrlausna, heilbrigðisþjónustan er á hraðferð í einkarekstur þar sem fjárráð hinna veiku munu ráða meðferð og aftur er þrælahald og slæm meðferð á fólki komin á dagskrá. Auðvaldið – ótýndir kennitöluflakkarar og efnahags- glæpamenn láta einskis ófreistað til að komast yfir skjótfenginn gróða og ef það þýðir að ræna fólk frelsinu þá gera þeir það. Ef það þýðir að brjóta á bak aftur áratuga réttindabaráttu íslensks launafólks – þá freista þeir þess.
 
En kannski er mikilvægasti árangur verkalýðsbaráttunnar sá að við stöndum ekki ein. Mögulega var eitt þeirra tuga dómsmála sem AFL hefur háð á liðnum árum – vegna eins afkomanda fátæku konunnar úr uppsveitum. Kannski sóttum við veikindaréttinn hans með dómi eða uppsagnarfrestinn hennar. Kannski voru það slysabætur eða jafnréttismál. Með samtakamættinum höfum við tekið svipu atvinnu- og umkomuleysis af húsbóndanum. Það á enginn að vera umkomulaus sem er í stéttarfélagi. Þar á enginn að standa einn í sinni baráttu.