Fjarvistir vegna veikinda, starfsöryggi og starfsánægja
Það hefur verið sýnt fram á, að því ánægðara sem fólk er í vinnunni, því sjaldnar er það fjarverandi vegna veikinda. Þetta kom m.a. fram í síðustu launa- og viðhorfskönnun AFLs. Í sömu könnun kom jafnframt fram, að svarendur sem upplifðu lítið starfsöryggi voru meira frá vegna veikinda, en þeir sem upplifðu mikið starfsöryggi.
Um 43% svaranda kváðust hafa verið frá vinnu í einn dag eða meira vegna veikinda eða vinnuslyss sl. 3 mánuði. Þetta hlutfall hefur farið vaxandi undanfarin ár. Það að starfsánægja dragi úr líkum á veikindum kemur ekki á óvart. Sú niðurstaða, að að minna starfsöryggi dragi ekki úr fjarvistum vegna veikinda, kemur aftur á móti nokkuð á óvart. Það gæti skýrst af bættu atvinnuástandi. Þó er mikilvægt að draga ekki of ákveðnar ályktanir nema fylgjast með þróun yfir lengri tíma.