AFL starfsgreinafélag

Hér að neðan er athugsasemd frá framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands vegna skrifa stjórnar Sjómannafélags Íslands um kjarasamning SSÍ og SFS.

 
Allt tal um að Ríkissáttasemjari hafi ekki komið að samningi SSÍ og SFS er ekki rétt. Eftir að samningar voru felldir á síðasta ári fór málið auðvitað áfram sína leið undir forystu Ríkissáttasemjara. Embættið stjórnaði viðræðum allan tímann hjá okkur við gerð þessa samnings. SÍ hefur ekki aðkomu að kjarasamningi SSÍ og SFS. Það hvort SÍ er í viðræðum við SFS eða ekki, er ekki á okkar ábyrgð heldur þeirra sjálfra.
 
Auðvitað eru sjómenn ekki samningslausir. Í öllum kjarasamningum á Íslenskum vinnumarkaði er yfirleitt tekið fram að eldri samningur gildi þar til nýr er gerður. Þetta vita allir, líka SÍ. En samningurinn er laus þar til nýr er gerður. Í tilfelli sjómanna þýðir það að sjómenn fá t.d. ekki hækkun á kauptryggingu og öðrum launaliðum. Það hefur nú raungerst frá 1. desember 2019 eða í rúm 4 ár. Samningur okkar felur í sér að þær hækkanir sem hafa orðið á almenna markaðnum frá 2019 koma inn sem hækkun kauptryggingar og til hækkunar annara launaliða.
Í sambandi við veikinda- og slysalaun vill SSÍ taka fram að verið er að tryggja sjómönnum samfellu í launum ef þeir eru í skiptimannakerfum. Sjómaður fær sinn 60 daga rétt á fullum launum og fulla kauptryggingu eftir það. Breytingin er sú að þennan rétt er nú hægt að taka á 120 daga tímabili. T.d. ef sjómaður veikist þá er hann jafnsettur eins og hann væri að róa.
 
Hálfur hlutur í 120 daga ef þarf og full kauptrygging eftir það. Ítrekað er í okkar samningi að um þá sem ekki eru í skiptimannakerfum eða í ótímabundnum ráðningum og þá sem nýbyrjaðir eru til sjós gilda ákvæði sjómannalaga. 60 dagar á staðgengilslaunum og full kauptrygging eins og við á. Engar tilslakanir eins og haldið er fram að háflu SÍ.
 
Í flestum tilfellum er 50% kosningaþátttaka frekar lítil þátttaka hjá sjómönnum innan SSÍ. Í fyrra vantaði um 50 atkvæði uppá að þátttakan væri 50%. Í atkvæðagreiðslunni um verkfall 2016 var þátttakan 56% og 89% samþykktu verkfall. Í atkvæðagreiðslu um samninginn 2017 var þátttakan 54%. Af þessu leiðir að ef sjómönnum er alvara með uppsögn eða aðgerðum getum við treyst á þátttöku þeirra. Mjög mörg félög ná ekki viðlíka þátttöku í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga eða annað sem þeim tengist og hjá sjómannafélögunum innan SSÍ.
Grein 1.39. hefur verið í kjarasamningi sjómanna frá árinu 2004. Líka hjá SÍ. Við tryggjum að málsmeðferð verði með sanngjörnum hætti komi upp álitamál. Ákvæði sem ekki var áður. Auðvitað er hægt að setja fram kröfu um hækkun skiptaprósentu ef ástæða þykir til - ekki bara lækkun. Til þess þarf rökstuðning og samningaumleitanir. Ef ekki næst saman fer málið til nefndar sem samningsaðilar koma sér saman um. Ef ekki næst samkonulag um þá nefnd skipar Ríkissáttasemjari hana. Brauðrist í kokkhúsið, nýr vettlingablásari, ný dýna í kojuna eða færiband skipta engu í þessu sambandi.
Í samningi SSÍ og SFS er ákvæði um að sjómenn geti valið lífeyrisleið eða hækkun skiptaprósentu. Ef lífeyrisaukaleiðin er valin þýðir það í raun að 71,4%. komi til skipta. Útgerðin tekur 2/3 af kostnaði við lífeyrisleiðina en sjómenn 1/3. Ef sjómenn kjósa að sleppa lífeyrisleiðinni er skiptaprósentan 70,5%. Launaskerðingin er því í raun engin heldur þvert á móti. Sjómaður sem fer lífeyrisleiðina getur t.d. valið að setja 3,5% í tilgreinda séreign sem er erfanleg séreign viðkomandi. Sá sem velur ekki lífeyrisleiðina fær líka kauphækkun með því að skiptaprósentan hækkar úr 70% í 70,5%. Útúrsnúningar SÍ breyta engu þar um. Það er rangt sem haldið er fram að landverkafólk hafi ekki þurft að greiða fyrir aukin lífeyrisréttindi.
 
Desemberuppbót kemur inn 15. desember 2028. Hún verður sama upphæð og hjá Starfsgreinasambandinu. Skilyrði hennar eru skýr. 160 lögskráningardaga þarf til að fá fulla uppbót. Þar má einnig telja inn tímavinnu viðkomandi. Engar takmarkanir aðrar eru þar um. Einnig fá sjómenn 400.000 kr. launauppbót sem eingreiðslu og auðvitað eru öll laun skattskyld, nema hvað?
 
Vegna kynningar á samningnum vill framkvæmdastjórn SSÍ taka fram að hún telur sjómenn vel læsa og vel til þess fallna að kynna sér samninginn í þaula enda allt efni hans á heimasíðu SSÍ og á síðum félaga inna SSÍ. Allir formenn sjómannafélaga innan SSÍ og starfsmenn eru nú að kynna félagsmönnum samninginn og svara spurningum um innihald hans. Við veljum að hver sjómaður sem hefur rétt á að greiða atkvæði um samninginn geri það einu sinni. Enda hafa okkar sjómenn kynnt sér samninginn vel og láta ekki utanaðkomandi aðila hafa áhrif á sína skoðun.
Af lokaorðum yfirlýsingar SÍ má skynja nokkurn titring í þeirra herbúðum. Eins og rekið er hér að framan lækka laun sjómanna ekki í þessum samningi heldur hækka í báðum tilfellum, hvort sem sjómenn velja lífeyrisleiðina eða ekki. Þannig að það sem SÍ telur óboðlegt er þeirra hugarburður og aumkunarverð tilraun til að tala kjarasamning SSÍ niður.
 
Nánari upplýsingar um helstu atriði kjarasamningsins má finna hér: https://www.ssi.is/.../sjo-mannasamningur-2024-kynning.pdf
Kjarasamning SSÍ og SFS í heild má finna hér: https://www.ssi.is/media/1096/kjarasamningur-2024.pdf