Verkalýðsfélögum, alþingi og almenningi stillt upp við vegg!
Þegar samningaviðræður SGS við Samtök atvinnulífsins hafa staðið nú á annan mánuð er ljóst að afstaða SA er eftirfarandi:
1. Samtökin ætla að semja um 7,5% kostnaðarauka á þremur árum. Lesendur, athugið að þessu er ekki lýst sem markmiði heldur „ætlar SA að semja svona“.2. SA ætlar að semja um „samræmda“ launastefnu. Það er ekki markmið – heldur „ætla“ samtökin að semja um það sama við alla og „ætlast til“ að hið sama muni gilda um aðra hópa, s.s. opinbera starfsmenn og fleiri sem ekki semja beint við SA.
3. SA ætlar að semja við „alla í einu“ – þ.e. það verður ekki samið við minni hópa fyrr en einhvers konar heildarsamingum er lokið og þá verður mönnum boðið upp á „copy/paste“ samning.
4. SA ætlar að láta ríkisstjórnina og alþingi samþykkja fiskveiðistjórnunarstefnu sem samtökunum er þóknanleg. Aftur er það ekki markmið – heldur skilyrði.
Þegar heildarsamtök launagreiðenda ganga til samninga með ofangreind fjögur atriði í farteskinu þá veltir maður því fyrir sér hvort Samtök Atvinnulífisins telji sig þannig hafa tekið sér samningsumboð allra stéttarfélaga í landinu og svona til viðbótar fengið löggjafarvaldið í kaupbæti. Þegar það sem SA ætlar og SA setur sem skilyrði er skoðað er ljóst að verði farið að „ætlan“ þeirra og skilyrðum eru samningsuboð verkalýðsfélaga innan ASÍ og utan marklaus og hlutverk alþingis orðið að stimpilstofnun fyrir SA.
Því miður er það svo að sá málflutningur sem SA hefur kynnt síðustu daga er farinn að vinna beint gegn möguleikum á eðlilegum kjarasamningum án átaka. Verkalýðsfélag sem stillt er upp við vegg og tilkynnt – þetta fáið þið og ekkert annað - og ekki fyrr en okkur þóknast, hefur ekki um marga möguleika að velja. Forysta og félagsmenn viðkomandi félaga geta valið um að leggjast á bakið og láta SA vaða yfir sig eða grípa til varna. Nauðvörn verkalýðsfélaga eru verkföll.
Samningslipurð SA er slík að samningamönnum verkalýðshreyfingarinnar var ekki einu sinni gefinn kostur á að vinna sig að einhverri niðurstöðu í viðræðum við fulltrúa SA – heldur var skilyrðunum skellt á borðið strax í upphafi og „væntanleg“ samningskjör, þ.e. 7,5% á þremur árum, tilkynnt sem þau væru meitluð í stein og þeim yrði ekki breytt. Þessi framkoma er með ólíkindum og þá ekki síður það að taka launafólk allt og almenning í gíslingu fiskveiðistjórnunar
.Þá eru og slíkar rökvillur í málflutningi SA að mann setur hljóðan. Þannig fullyrða talsmenn samtakanna að verði launahækkun t.d. í fiskimjölsverksmiðju – um 100 starfsmenn – hljóti óðaverðbólga að fara af stað. Launahækkun þessara starfsmanna, sem hafa sjálfstæðan samningsrétt eins og félagsdómur úrskurðaði, muni sjálfkrafa renna um landið allt og valda upplausn.
Þess vegna hafa samtökin ákveðið í raun að svipta þetta fólk samningsrétti – og tilkynna því að þeir geti, þrátt fyrir lögbundinn samningsrétt sinn, fengið það sem aðrir semja um síðar.
Bræðslumenn er flestir hverjir á landsbyggðinni og muna ekki eftir að launaskriðið í góðærinu hafi haft sjálfkrafa hækkanir á landsbyggðinni í för með sér og undrast mjög hversu ráðandi þeir eru allt í einu orðnir um launakjör á landinu – enda er þessi fyrirsláttur SA hreinasta rökleysa.
Þrátt fyrir að fulltrúi SGS og Sjómannasambandsins hafi verið aðilar að niðurstöðu sáttanefndar og tekið undir sjónarmið um „samningaleið“ varðandi fiskveiðistjórnun – fylgir ekki með í pakkanum að aðildarfélög Alþýðusambandsins séu tilbúin til að beita afkomu félagsmanna sinna sem þvingunarúrræði til að ná fram ákvörðun ríkisstjórnar og alþingis sem er SA þóknanleg.
Öll vísun til fyrri „félagsmálapakka“ eða aðgerða sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sameiginlega þrýst á ríkisvaldið að framkvæma í tengslum við kjarasamningagerð er úr tengslum við alla skynsemi.
Við getum örugglega tekið undir að óvissa í fiskveiðistjórnun og kvótastöðu einstakra útgerða er slæm og sennilega óþolandi fyrir marga aðila – en það breytir engu um nauðsyn þess að ganga frá kjarasamningum.
Eins og staðan er nú eru verkfallsaðgerðir óumflýjanlegar og það verða bræðslumenn á Austurlandi, Vestmannaeyjum og á Akranesi sem ríða á vaðið. Eins og hljóð er í mönnum virðist stefna í hörð verkföll og jafnvel langvinn. En bræðslumenn vita að það kemur vertíð eftir þessa vertíð og það sem við teljum á okkur brotið nú verður geymt en ekki gleymt.
Aðrir hópar innan ASÍ munu eflaust fylgja á eftir og vitað er að undirbúningur er hafinn á nokkrum stöðum.
Það sem er einkennilegt við „órofa samstöðu“ innan SA um þessa „rétttrúar stefnu samtakanna“ er að þau öfl sem hafa mestan hag af því að skilyrði um fiskveiðistjórnunina verði keyrt til þrautar eru aðilar í útgerð og þá kannski sérstaklega í bolfiski en allir innan ASÍ vita að verkföll í bolfiskvinnslu eru tilgangslítil því þau þurfa að standa mjög lengi til að valda fyrirtækjum erfiðleikum.
Það er því næsta víst að verkfallsaðgerðir Alþýðusambandsfélaga munu einna helst beinast að atvinnugreinum og fyrirtækjum sem liggja vel við höggi – þannig að væntanlega mun á næstu vikum reyna mjög á það hversu „réttrúnaðurinn“ heldur.
Það verður alltaf tjón við verkföll – kostnaður fellur á launafólk og fyrirtæki og síðast á samfélagið allt. Verkfallsaðgerðir nú og á næstu vikum má rekja beint og milliliðalaust til harðlínustefnu SA, sem hefur tekið þá stefnu að ganga ekki til samninga heldur stilla launafólki og ríkisstjórn upp við vegg og setja skilyrði.
Við það verður ekki unað.
Sverrir Albertsson, fulltrúi í Samninganefnd AFLs Starfsgreinafélags