AFL starfsgreinafélag

Lífeyrismál

Aðild að lífeyrissjóði er bundin í lög enda hafa lífeyrissjóðir að mestu tekið við lífeyrishlutverki því sem Tryggingastofnun ríkisins var ætlað i upphafi. Þáttaka í lífeyriskerfi almennra lífeyrissjóða fylgir auk réttar til ellilífeyris, veruleg tryggingarvernd, s.s. réttur til örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris – við fráfall launamanns.  Á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða segir m.a.:
“Lífeyrissjóðirnir eru tvímælalaust eitt af óskabörnum íslensku þjóðarinnar.  Í heild mynda sjóðirnir lífeyriskerfi sem landsmenn eru stoltir af og vekur aðdáun erlendis.
Þrennt einkennir lífeyrissjóðina:

  • Sjóðsöfnun. Við leggjum saman í sjóð sem er ávaxtaður til að greiða okkur öllum lífeyri til æviloka. Þannig er lífeyrir framtíðarinnar tryggður með traustum sjóði fremur en vaxandi skattbyrðum á afkomendur okkar.
  • Samtrygging. Aðild að lífeyrissjóði tryggir þér verðtryggðan lífeyri til æviloka. Með samábyrgð og þátttöku allra tryggjum við einnig lífeyri til þeirra sem verða fyrir áföllum vegna slysa eða sjúkdóma.
  • Skylduaðild. Aðild að lífeyrissjóðum er skylda samkvæmt landslögum og er forsenda þess að við getum dreift áhættunni, forðast mismunun og tryggt öllum lífeyri, óháð efnahag, aðstæðum eða kyni.

Með lífeyrissjóðunum leggjum við grunninn að fjárhagslegu öryggi okkar allra, alla ævi.” batar
Félagsmenn AFLs Starfsgreinafélags tilheyra aðallega tveimur lífeyrissjóðum, Lífeyrissjóðnum Stapa, sem varð til með sameiningu Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands og Birta Lífeyrissjóður, sem er lífeyrissjóður iðnaðarmanna. 
Almennir lífeyrissjóðir ASÍ félaga urðu til 1969 í kjölfar kjarasamninga en samkomulagið var síðan tekið til heildarendurskoðunar 1995 og gert nýtt samkomulag milli ASÍ og VSÍ (nú SA). Á grundvelli þessa samkomulags náðist síðan pólitísk sátt í samfélaginu um uppbyggingu lífeyriskerfisins og sú sátt var fest með lögum nr. 129/1997, Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
Tekjur lífeyrissjóða eru af iðgjöldum félagsmanna, 4% af heildarlaunum, svo og mótframlagi launagreiðanda 8 - 11.5%. Reglur almennra lífeyrissjóða eru mjög svipaðar en réttindaávinnsla getur verið mismunandi eftir afkomu sjóðanna.
Það sem helst hefur áhrif á stöðu lífeyrissjóðs er:
1. Samsetning félaga hvað varðar aldur og afkomu.
2. Fjöldi þeirra er njóta örorkulífeyris.
3. Árangur fjárfestinga sjóðsins.
Þar sem hver sjóður er sjálfstæð eining og án opinberrar afkomutryggingar ræðst geta hvers sjóðs til greiðslu eftirlauna af ofangreindum atriðum.

Sjóðirnir hafa yfirleitt góðar heimasíður með upplýsingum um afkomu og réttindaávinnslu hvers sjóðs. Sjá tengla hér að ofan.

Lifeyrissjóðir eru trygging launafólks fyrir goðri afkomu eftir starfslok.