Stapi lífeyrissjóður sendir út sjóðfélagayfirlit fyrir lok aprílmánaðar. Vegna breytinga á mótframlagi launagreiðenda hefur sjóðurinn breytt lítillega útliti yfirlitanna. Breytingin felst í því að nú er hægt að sjá hlutfallstölu iðgjalds og mótframlags fyrir aftan nafn launagreiðanda.
Ensk þýðing á grunntexta sjóðfélagayfirlita er aðgengileg á heimasíðu sjóðsins.
Stjórn AFLs Starfsgreinafélags skorar á lífeyrissjóði Alþýðusambandsfélaga að beita hlutafjáreign sinni í hlutafélögum til að koma í veg fyrir stjórnlausa sjálftöku stjórnenda fyrirtækjanna.
Lífeyrissjóðakerfið er orðinn það stór eigandi fyrirtækja landsins að það er eðlilegt að sjónarmið eigenda lífeyrisréttinda komi sterklega fram á aðalfundum fyrirtækjanna ekki síður en sjónarmið annarra fjármagnseigenda. Og þegar almennt launafólk landsins á orðið 30 – 50% hlut í stærstu fyrirtækjum landsins er eðlilegt að eigendastefna lífeyrissjóðanna verði ráðandi við stjórn og starfssemi fyrirtækjanna.
Það er ljóst af fréttum síðustu mánaða að fjármálayfirstétt landsins hefur ekkert lært og engu gleymt. Græðgi og sjálftaka er orðinn veruleiki á sama hátt og á dögunum áður en fjármálakerfið hrundi allt síðast. Almenningur trúði þá að hið nýja Ísland yrði siðlegra en það sem varð gjaldþrota. Ljóst er að það gekk ekki eftir.
Í komandi kjarasamningum verður það verkefni verkalýðshreyfingarinnar að sækja sjálfsagðar kjarabætur launafólks og ekki síður að freista þess að siðvæða fjármálakerfið. Almennt launafólk gerir ekki aðeins kröfu til kjarabóta – heldur og ekki síður til þess að almenningur og stjórnendur sitji við sama borð. Að kjararáð og kjaradómur séu ekki sjálfráða um gegndarlausar hækkanir til embættismanna og kunningjasamfélagið í stjórnum fyrirtækja um gagnkvæmar hækkanir.
Félagsmönnum verslunar- og skrifstofudeildar AFLs hefur fjölgað um 43% frá janúar 2017 til desember 2017. Fyrir sameiningu verkalýðsfélaga á Austurlandi var Verslunarmannafélag Austurlands starfandi á miðausturlandi, héraði og fjörðum. Frá Stöðvarfirði og suður úr var síðan Vökull Stéttarfélag með starfandi verslunarmannadeild eftir að Verslunarmannafélag A.Skaft., sameinaðist Vökli 1992.
Við sameiningu í AFL Starfsgreinafélag, breyttist félagssvæði Verslunar-og skrifstofudeildar AFLS og náði þá yfir allt austurland en framan af var starfssemi deildarinnar bundinn við Höfn og nágrenni.
Síðustu misseri hefur félagsmönnum deildarinnar fjölgað verulega og í desember sl. skiluðu tæplega 500 félagsmenn iðgjaldi til AFLs v. verslunarstarfa og var það tæplega 50% aukning miðað við janúar sama ár. Innan Múlasýslna eru bæði VR og Verslunarmannadeild AFLs með gildandi kjarasamninga og getur því verslunar-og skrifstofufólk í þessum sýslum valið milli félaganna.
Aðalfundur deildarinnar verður á Höfn, nk. miðvikudag sbr. auglýsingu hér á síðunni. Formaður deildarinnar er Lars Jóhann Andrésson.
Laun félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um að 1,4 prósent frá síðustu áramótum (1. janúar 2018) vegna samkomulags um að launaþróun opinberra starfsmanna verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði. Reglulega er skoðað hvort bæta þurfi opinberu starfsfólki upp launaþróun á almennum markaði og þetta var niðurstaðan að þessu sinni.
Samkomulagið um launaþróun er gert á grunni rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá október 2015
Félagsmenn hafa haft samband við skrifstofu AFLs vegna atvinnuþátttöku sjálfboðaliða á vegum erlendra samtaka hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu. Vegna þessa hefur formaður AFLs m.a. sent Fjarðabyggð erindi þar sem segir:
"Sjálfboðaliðastörf hjá sveitarfélögum.
AFL Starfsgreinafélag hafnar allri aðkomu sjálfboðalíða við vinnu á vegum sveitarfélaga innan þéttbýliskjarnanna. Sama gildir um verklegar framkvæmdir á vegum sveitarfélaganna bæði innan og utan þéttbýlis.
Það er skilningur félagsins að sjálfboðaliðastörf geti því aðeins átt við um fegrun fólksvanga og hreinsun á fjörum.
Reynt hefur verið mánuðum saman að fá viðræður við Sambands ísl. sveitarfélaga um samræmdar reglur um störf sjálfboðaliða hjá sveitarfélögunum án árangurs.
Á meðan svo er mun AFL Starfsgreinafélag halda sig við ofnagreinda skilgreiningu.
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir"
Félagið hefur kannað í viðhorfskönnunum meðal félagsmanna hversu algeng sjálfboðaliðastörf eru og virðist sem þeim hafi fækkað nokkuð milli ára - sjá mynd. Félagið er að undirbúa átak í að ná persónulegu sambandi við þá sem starfa sem sjálboðaliðar og mun leitast við að fá þá til að heimila okkur að innheimta laun fyrir þá í þeim tilvikum sem sjálfboðaliðar starfa við efnahagslega starfssemi - þar sem vinnan hefði að öðrum kosti verið unnin af félagsmönnum AFLs.