AFL starfsgreinafélag

Frítökuréttur

Kröfur um lögbundinn hvíldartíma hafa lengi verið uppi á borðum verkalýðshreyfingarinnar. 1921, þegar vinnutími togarasjómanna þótti keyra um þverbak og menn hnigu nánast meðvitundarlausir af þreytu ofan í fiskkösina, voru í fyrsta sinn sett lög um hvíldartíma launafólks, Vökulögin svokölluðu, en með þeim var launafólki tryggður 6 tíma lágmarkshvíldartími á sólarhring.


1980 var lögbundin lágmarkshvíld síðan komin í 11 klst. daglega með lögum nr. 46 / 1980, en útfærsla frítökuréttar beið síðan kjarasamninganna 1996 (sjá síðar).


Ákvæði um hvíldartíma og frítökurétt hafa verið brotin hér á Austurlandi síðustu ár – bæði af hálfu félagsmanna okkar og fyrirtækjanna. Þannig er oft unninn langur vinnudagur, lengri en lög leyfa, án þess að lögbundin hvíld sé síðan tekin. Verulegur misbrestur er á að áunninn frítökuréttur komi fram á launaseðlum og víða virðist utanumhald fyrirtækja og/eða starfsmanna um áunninn rétt sé lítið.
Það er til umhugsunar fyrir þá sem finnst hvíldartímaákvæði til óþurftar að láta hugann reika til sjómannanna sem börðust fyrir rétti sínum fyrir 90 árum síðan.


Atvinnurekanda ber að skylda að skipuleggja vinnu sinna starfsmanna þannig að þeir fái a.m.k. 11. klst. lágmarkshvíld á hverjum sólarhring. Ef starfsmaður fær ekki a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld á sólarhring skapar það honum samkvæmt kjarasamningi svokallaðan frítökurétt. Frítökuréttur reiknast þannig að sá tími sem hin daglega lágmarkshvíld skerðist um er margfaldaður með 1 ½. Svo dæmi sé tekið þá leiðir skerðing daglegs hvíldartíma um 2 klst. til 3 klst. frítökuréttar. (Vefur ASÍ – Vinnuréttur, www.asi.is)


Um vinnutíma starfsmanna er fjallað í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og í kjarasamningum. Ákvæði laganna eru nánar útfærð í kjarasamningum. Vinnutímatilskipunin Reglur um vinnu- og hvíldartíma starfsmanna eru byggðar á tilskipun 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Markmið tilskipunarinnar er að setja lágmarkskröfur til að stuðla að umbótum, einkum að því er varðar vinnuumhverfi, til að tryggja aukið öryggi og heilsuvernd launafólks. Tilskipunin var upphaflega innleidd hér á landi með svokölluðum vinnutímasamningi ASÍ og VSÍ sem undirritaður var 30. desember 1996. Samsvarandi samningar voru gerðir í janúar 1997 milli ASÍ, BHM, BSRB og KÍ annars vegar og Ríkisins, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga hins vegar. Helstu megnreglur eru eftirfarandi: 11. klst. samfelld lágmarkshvíld á hverju 24 klst. tímabili. Einn hvíldardagur á viku í beinu framhaldi af daglegri lágmarkshvíld, þ.e. 35 klst. samfelld hvíld. Hámarksvinnutími á viku skal ekki vera meiri en 48 virkar vinnustundir að yfirvinnu meðtalinni. Ef nauðsynlegt er að skerða daglega eða vikulega lágmarkshvíld skal veita starfsmönnum samsvarandi hvíld síðar. Frítökuréttur skapast þegar dagleg lágmarkshvíld er skert. (Vefur ASÍ – Vinnuréttur, www.asi.is)

 


Úr kjarasamningum:
2.4.2. Frávik og frítökuréttur (Almennur samningur SGS)


Við sérstakar aðstæður, þegar bjarga þarf verðmætum, má lengja vinnulotu í allt að 16 klst. og skal þá veita 11 klst. Hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra daglauna.


Í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður gera það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum hvíldartíma gildir eftirfarandi: Séu starfsmenn sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1½ klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt er að greiða út ½ klst. (dagvinna) af frítökuréttinum óski starfsmaður þess. Í öllum tilfellum er óheimilt að skerða átta klst. samfellda hvíld.


Vinni starfsmaður það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags skal fara með það á sama hátt. Komi starfsmaður til vinnu á frídegi eða helgi greiðist yfirvinnukaup fyrir unninn tíma án frekari aukagreiðslna af þessum sökum.


Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vaktaskiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst. Uppsafnaður frítökuréttur skv. framangreindu skal koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum utan annatíma í starfsemi fyrirtækis í samráði við  starfsmenn enda séu uppsafnaður frítökuréttur a.m.k. fjórar klst. Við starfslok skal ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma.

Lögin